Skip to main content
29. ágúst 2017

Fyrst til að verja doktorsritgerð í safnafræði við HÍ

Ósýnileiki kvenna á sýningum menningarminjasafna á Íslandi er meginþema doktorsritgerðar Arndísar Bergsdóttur en hún var á föstudag fyrst nemenda til að brautskrást með doktorspróf í safnafræði frá Háskóla Íslands.

Doktorsritgerðin ber heitið „(Ó)sýnileg: Samofin fjarvera kvenna á íslenskum söfnum og mótun femínískrar safnafræði“ (e. Absence comes to matter. Entangled becomings of a feminist museology) og vann Arndís hana undir leiðsögn Sigurjóns Baldurs Hafsteinssonar, prófessors í safnafræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Auk Sigurjóns voru þær Amelia Jones, prófessor í listum og hönnun við University of Southern California, og Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, í doktorsnefnd Arndísar.

Ritgerð Arndísar er innlegg í femíníska safnafræði og byggist á rannsóknum hennar á íslenskum menningarminjasöfnum. Hún miðar að því að draga fram þaggaðar raddir og kerfislægan ósýnileika kvenna á sýningum menningarminjasafna. Með það markmið að leiðarljósi beitir Arndís nýstárlegum hugmyndum svokallaðrar ný-efnishyggju (e. new materialism) sem meðal annars tekur mið af lögmálum skammtafræði og er viðleitni til að skilja flókna og óreiðukennda veröld samtímans.

Fyrri rannsóknir, sem gerðar hafa verið á sýningum safna í Skandinavíu og Bretlandi, gefa til kynna að almennt dragi sýningar menningarminjasafna upp einfaldaða og einhæfa mynd af konum eða sleppi jafnvel alveg að minnast á þátt þeirra í sögum samfélaga og þjóða. Arndís lítur á fjarveru sem þýðingarmikið fyrirbæri og tæki til að rýna gagnrýnið í hlutverk safna. Ekki nægi að opna glatkistuna til að draga fram hlutverk kvenna. Sú hugmyndafræði sem söfn byggi á enn þann dag í dag feli í sér tvískiptingu sem hygli karllægum gildum umfram líf og reynslu kvenna. Að bæta konum við núverandi frásagnir sé tímabundin valdefling. Til lengri tíma litið þurfi söfn að tileinka sér aðferðir sem gangi þvert á þrautseigar hugmyndir sem rýri hlut kvenna og annarra undirskipaðra hópa. Tímabært sé að söfn innleiði hugsunargang sem geri þeim kleift að takast á við samofin sambönd náttúru, menningar og margslunginna málefna.

Þær nálganir sem Arndís beitir í doktorsritgerð sinni vísa til þess hvernig efnismenningu eru settar skorður á sýningum safna en draga um leið fram þá möguleika sem felast í því að líta á málefni sem margvísleg samofin tengsl ólíkra fyrirbæra í veröldinni. Slík nálgun er nýnæmi á sviði safnafræði.

Doktorsvörn Arndísar fór fram í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands og voru andmælendur dr. Janet Marstine, stjórnandi safnfræðideildar Leicester-háskóla, og dr. Björn Þorsteinsson, prófessor í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

Arndís er með BA-gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í safnafræði frá sama skóla. Hún hefur starfað sem safnstýra á Iðnaðarsafninu á Akureyri og við rannsóknar- og birtingastörf innan auglýsingageirans. Hún gegnir nú starfi aðjúnkts í félagsfræði við Háskólann á Akureyri.

Janet Marstine, Arndís Bergsdóttir, Björn Þorsteinsson og Guðbjörg Vilhjálmsdóttir.