Skip to main content
9. maí 2022

Fylgist með Aurora-vorráðstefnunni í beinu streymi frá Austurríki

 Fylgist með Aurora-vorráðstefnunni í beinu streymi frá Austurríki - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fulltrúar frá Háskóla Íslands og öðrum Aurora-háskólum halda til Innsbruck í Austurríki dagana 11.-12. maí til að taka þátt í ráðstefnunni Aurora Spring Biannual 2022. Ráðstefnan er haldin tvisvar á ári og skipuleggur Háskólinn í Innsbruck hana að þessu sinni.

Dagskrá ráðstefnunnar er afar spennandi og mun veita þátttakendum yfirlit yfir þann árangur sem hefur náðst í Aurora-samstarfinu síðastliðna 18 mánuði og framtíðarsýn næstu ára. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, er forseti Aurora og mun flytja ávarp við opnun ráðstefnunnar ásamt Tilmann Märk, rektor Háskólans í Innsbruck, og Georg Willi, borgastjóra Innsbruck.

Þá mun Tetyana Kaganovska, rektor Karazin Kharkiv National University í Úkraínu, vera meðal gesta og flytja ávarp. HÍ ásamt öðrum Aurora-háskólum hafa stutt við Karazin-háskólann til að mæta þeim gríðarlega erfiðu aðstæðum og áföllum sem stríðið í Úkraínu hefur valdið og munu þær aðgerðir vera kynntar. Að auki fara fram pallborðsumræður um samfélagsleg áhrif rannsókna og nýsköpunar frá mismunandi sjónarhornum auk fjölda áhugaverðra kynninga frá nemendum og starfsfólki Aurora-háskóla. Sérstök athygli er vakin á kynningum frá Ölmu Ágústsdóttur, alþjóðafulltrúa SHÍ og forseta Aurora nemendaráðsins, og Toby Wikström frá Miðstöð framhaldsnáms á fimmtudeginum.

Öll áhugasöm geta fylgst með kynningum og umræðum á opnum erindum í beinu streymi frá Austurríki:

Athugið að tímasetningar í dagskránni eru gefnar upp á evrópskum sumartíma svo erindi hefjast tveimur klukkustundum fyrr að íslenskum tíma.

Aurora er samstarfsnet öflugra evrópskra rannsóknaháskóla sem vinnur að kennsluþróun og nýsköpun í starfsemi háskóla til að mæta samfélagslegum áskorunum nútímans.

Háskólinn í Innsbruck