Skip to main content
17. apríl 2018

Fundaröð um samskipti Íslands og Danmerkur í 100 ár

""

Á mótum danskrar og íslenskrar menningar er nafnið á nýrri fundaröð sem námsbraut í dönsku við Háskóla Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum standa saman að og boðið er upp á í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Fyrsta málþingið, sem nefnist „Danskar og íslenskar bókmenntir - Gagnvegir í eina öld“ verður haldið í Veröld - húsi Vigdísar á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 19. apríl, milli klukkan 14 og 16.30. Málþingið er öllum opið og aðgangur er ókeypis. 

Erik Skyum-Nielsen, lektor í dönskum bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla og einn helsti þýðandi íslenskra bókmennta á danska tungu, kemur til landsins og mun fjalla um aðdráttarafl íslenskra bókmennta á málþinginu. Þá mun Sveinn Einarsson, fyrrverandi þjóðleikhússtjóri, fjalla um dönsk verk á íslensku leiksviði og Una Margrét Jónsdóttir, fræðimaður og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV, mun fjalla um revíur. 

Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona mun að lokum flytja nokkur revíulög við undirleik Helgu Bryndísar Magnúsdóttur píanóleikara. 

Málþingið er það fyrsta af sjö undir yfirskriftinni Á mótum danskrar og íslenskrar menningar en fundaröðin er meðal þeirra 100 verkefna sem valin voru á dagskrá 100 afmælis fullveldis Íslands. Fjallað verður um efni sem borið hefur hátt í samskiptasögu landanna á síðustu öld í fundaröðinni.

""