Skip to main content
20. apríl 2018

Fuglaskoðun í Grafarvogi á laugardag

Þegar farfuglarnir okkar flykkjast heim til Íslands er vorið komið og sumarið á næsta leiti. Laugardaginn 21. apríl kl. 13 mun Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, leiða gönguferð í Grafarvog þar sem farfuglarnir safnast saman. Ferðin er í röðinni „Með fróðleik í fararnesti“ og tekur hún um tvær klukkustundir. Um er að ræða samvinnuverkefni með Ferðafélagi Íslands.  

Tómas mun bjóða upp á fræðslu um líf þeirra fugla sem ber fyrir augu en þátttakendur eru hvattir til að taka með sér sjónauka og gjarnan fuglabækur til að fletta í.  Það verður samt án efa hægt að fletta duglega upp í Tómasi Grétari enda mikill fuglasérfræðingur og með margra ára reynslu í rannsóknum á fuglum himinsins. 

Margir af þeim farfuglum sem halda nú til í Grafarvogi eru langt að komnir. Ótrúleg ratvísi farfugla hefur enda lengi verið rannsóknarefni vísindamanna. Tómas Grétar segir að fuglar noti fjölbreytt skynfæri til að rata milli staða. „Til dæmis segulsvið jarðar, sólarkompás og reynslu þegar þeir eldast.“ 

Af hverju geta fuglar flogið?
Haldið verður í hann kl. 13 laugardaginn 21. apríl og mun hópurinn fara saman frá bílastæðinu við Grafarvogskirkju, en við mennirnir þurfum að sætta okkur við að ferðast fótgangandi á sama tíma og fuglarnir svífa um himinninn. 

Líf flestra fugla snýst um að geta flogið en þessi mögnuðu dýr virðast stundum sigrast á þyngdaraflinu og það heillar auðvitað manninn sem er vængjalaus. „Flug er mikilvæg aðlögun sem gefur fuglum forskot í lífsbaráttunni. Flug auðveldar fuglunum t.d. að forðast hættur og ferðast milli fjarlægra staða í leit að  betri skilyrðum. Flugið þróaðist á löngum tíma í smáum skrefum,“ segir Tómas Grétar. 

Fuglar mælikvarði á ástand vistkerfa
„Mörgum finnst að það sem hefur sem beinust áhrif á afkomu manna sé það sem skiptir máli. Gefum okkur að það sé sanngjörn krafa. Öll umsvif og tilvist manna eru háð náttúrunni. Þaðan fáum við öll hráefni, mat, súrefni, vatn, skjól o.s.frv. Vistkerfi spila saman við hringrásir ólífrænna efna í vatni, jarðvegi og lofti og tilvist okkar mannanna er háð þessu samspili. Fuglar eru hluti af vistkerfum og það er erfitt að halda öðru fram en að sem dýpst þekking á þeim kerfum sem halda í okkur lífinu sé æskileg.“ 

Tómas Grétar segir að ef við horfum á þekkt gildi fugla fyrir vistkerfi og skilning okkar á vistkerfum megi nefna ýmis dæmi. „Fuglar eru t.d. oft ofarlega í fæðukeðjum og fuglarannsóknir gefa ódýrar vísbendingar um atburði á neðri fæðuþrepum. Fuglar flytja orku og áburð milli svæða, frjóvga plöntur, næra menn og fleiri verur. Fuglar bera líka sjúkdóma og geta valdið tjóni. Margt fleira mætti nefna af hagnýtum atriðum. Rannsóknir hafa líka miklu víðtækara og almennara gildi en það sem afmarkast af hagnýtum atriðum sem okkur tekst að týna til með nútímaþekkingu. Fuglarannsóknir eru líka skemmtilegar,“ segir Tómas Grétar og brosir. 

Flestir eiga uppáhaldsfugla 
„Minn uppáhaldsfugl er spói,“ segir Tómas Grétar og brosir. „Fuglar eru frísklegir og áberandi. Dýr sem ekki geta flogið og flúið á vængjum láta síður sjá sig og almenningur kynnist þeim því síður. Líklega værum við líka spennt fyrir fljúgandi krókódílum. Það er eitthvað heillandi við flugið sjálft. Ætli tilhneiging fólks til að velja sér uppáhaldsfugl sé eins og að halda með liði í ensku,“ segir Tómas Grétar og hlær. 

Ferðin á laugardag er liður í samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna, sem er angi innan Ferðafélags Íslands, um göngu- og hjólaferðir undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“ sem hófst á aldarafmælisári skólans árið 2011. 

Þátttaka er með öllu ókeypis. 
 

Fólk skoðar fugla í Grafarvorgi