Fuglar í Fjársjóði framtíðar í kvöld | Háskóli Íslands Skip to main content

Fuglar í Fjársjóði framtíðar í kvöld

30. maí 2018
margæsir á Seltjarnarnesi

Fuglar koma við sögu í fjórða þættinum í vísindaþáttaröðinni um Fjársjóð framtíðar sem sýndur verður á RÚV miðvikudaginn 30. maí kl. 20.05. Jaðrakan, margæs, himbrimi og haförn eru meðal þeirra tegunda sem sjónum verður beint að í þættinum. Meðal annars er fylgst með heimsókn vísindamanna Háskóla Íslands í hreiður hafarnar og merkingum á himbrima en báðar þessar tegundir eru á válista.  

Í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar er farið víða um land og haf til að fylgjast með metnaðarfullum vísindamönnum við Háskóla Íslands að störfum. Vísindamenn eru gjarnan knúnir áfram af forvitni sem aldrei verður svalað. Nýjar uppgötvanir kalla á nýjar spurningar í eilífri hringrás þekkingarleitarinnar. Í þáttunum fáum við innsýn í þessa leit en varpað verður ljósi á fjölbreyttar og spennandi rannsóknir vísindamanna á ólíku efni sem varðar okkur öll og umhverfið sömuleiðis. 

„Það er afar sjaldgæft að geta rannsakað einangraðan villtan stofn og hafa aðgang að erfðaefni úr nær öllum einstaklingum vegna blóðsýna sem hafa verið tekin úr öllum ungum í meira en áratug. Einnig er mjög mikilvægt að skilja hvaða þættir hamla vexti og viðgangi sjaldgæfra tegunda en slíkt er alger undirstaða fyrir verndun þeirra. Rannsóknir á haferninum eru grunnstoð í að finna leiðir til að tryggja framtíð hans,“ segir Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, sem fer í arnarhreiðrið í þáttaröðinni ásamt föður sínum, Hallgrími Gunnarssyni, og Snæbirni Pálssyni prófessor. „Skilningur okkar á lífi fugla gefur mikilvægar upplýsingar um verkun og heilbrigði þess umhverfis sem við mennirnir lifum í og byggjum afkomu okkar á.“

Gunnar Þór segir að fegurð fuglanna, og hversu sýnilegir þeir séu, geri það að verkum að við stöldrum gjarnan við og horfum á þá af aðdáun. „Þegar við kynnumst þeim í nærumhverfi okkar þá sjáum við líka svo margt sem samræmist lífi okkar sjálfra og það vekur upp tilfinningar.“

Fuglarnir eru í varplandinu núna
Nú er sá tími þegar fuglar eru á hreiðrum eða eru að koma upp ungum og því frábært að fylgjast með rannsóknum á fuglum á þessum ártíma þegar þeir eru einmitt svona áberendi í umhverfi okkar. Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, er eins og Gunnar Þór með fugla á heilanum því rannsóknir beggja snúast að mestu um þessar fljúgandi líferur. Tómas Grétar er líka í hópi viðmælenda í fjórða þættinum í vísindaröðinni um Fjársjóð framtíðar. 

Af hverju geta fuglar flogið?
Við mennirnir þurfum að sætta okkur við að ferðast með fótunum á sama tíma og fuglarnir svífa um himinninn. „Líf flestra fugla snýst um að geta flogið,“ segir Gunnar Þór, en þessi mögnuðu dýr virðast stundum sigrast á þyngdaraflinu og það heillar auðvitað manninn sem er vængjalaus. „Flug er mikilvæg aðlögun sem gefur fuglum forskot í lífsbaráttunni. Flug auðveldar fuglunum t.d. að forðast hættur og ferðast milli fjarlægra staða í leit að  betri skilyrðum. Flugið þróaðist á löngum tíma í smáum skrefum,“ segir Tómas Grétar.

Margir af þeim farfuglum sem nú eru sýnilegir í íslenskri náttúru er ótrúlega langt að komnir. Ótrúleg ratvísi farfugla hefur enda lengi verið rannsóknarefni vísindamanna. Gunnar Þór segir að sumir fuglar haldi sig þó nærri varpstöðvunum árið um kring. „Þeir eru heimakærir,“ segir hann. „Til að rata stuttar vegalengdir á milli staða nota fuglarnir minni alveg eins og mannfólkið sem þekkir hvar húsið sitt er staðsett í ákveðnu hverfi í tilteknum bæjarhluta. En margir fuglar fara í langferðir til útlanda yfir veturinn og til að rata á slíkum langferðum nota fuglarnir magnaðar aðferðir,“ segir Gunnar Þór. Tómas Grétar bætir því við að fuglar noti fjölbreytt skynfæri til að rata milli staða. „Til dæmis segulsvið jarðar, sólarkompás og reynslu þegar þeir eldast.“

Margæsin til rannsóknar
Margæsin er hánorrænn varpfugl sem fer hér um á vorin til að hlaða tankinn fyrir næsta áfanga í gríðarlegu langflugi. Margæsin er í hópi þeirra gæsa sem ferðast hvað lengst en þær fljúga héðan á vorin yfir þveran Grænlandsjökul á varpstöðvar nyrst í Kanada.  Á haustin koma þær síðan aftur á leið sinni á vetrarstöðvar á Írlandi. Freydís Vigfúsdóttir, sérfræðingur við Háskóla Íslands, hefur tekið þátt í viðamiklum og fjölþjóðlegum rannsóknum á þessum magnaða fugli. 

„Ef ég gæti valið mér ofurkraft myndi ég velja að geta flogið – en fyrir utan það þá er ég að mörgu leyti farfugl í eðli mínu, svona eins og margæsin,“ segir Freydís og hlær en hún er einn viðmælenda í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar. Freydís rannsakar nú með hópi vísindamanna frá Exeter-háskóla í Cornwall áhrif umhverfis á margæsastofninn í heild; á viðkomustöðum eins og hér og einnig á vetrar- og varpstöðvum. „Við skoðum t.d. gæði fæðusvæða, truflun frá mönnum, félagskerfi fuglanna og áhrif skyldleika,“ segir Freydís. Hún vinnur rannsókn sína í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og með stuðningi frá RANNÍS.

Handrit raðarinnar Fjársjóður framtíðar er unnið af þeim Birni Gíslasyni, Jóni Erni Guðbjartssyni og Konráð Gylfasyni en þeir sjá einnig um dagskrárgerð. Jón Örn er kynnir í þáttunum. 

Frá arnarhreiðri
Jaðrakan
Himbrimi
Freydís Vigfúsdóttir og samstarfsmaður með margæs.