Skip to main content
4. janúar 2018

Frjálslynd guðfræði og kvikmyndir í Ritröð Guðfræðistofnunar

Nýtt hefti Ritraðar Guðfræðistofnunar var gefið út fyrir skömmu með fjölbreyttu efni greina, fyrirlestra, ritdóma og andmæla við doktorsvörn. Rúnar M. Þorsteinsson prófessor er ritstjóri ritraðarinnar.

Tvær greinar eru í heftinu, önnur eftir Hjalta Hugason prófessor en hin eftir Gunnlaug A. Jónsson prófessor. Grein Hjalta nefnist „Boðberi vonar: Páll í Gaulverjabæ og frjálslynd, kontextúal guðfræði“, og er fyrri grein höfundar um efnið en síðari greinin verður birt í sumar. Í þeim fjallar Hjalti um tengsl Páls Sigurðssonar (1839–1887) við frjálslyndu guðfræðina svonefndu sem hann telur eldri hérlendis en hingað til hefur verið talið. Í grein sinni, „Stormviðri og þjáning hins réttláta manns: Fingraför og áhrif Jobsbókar í þremur kvikmyndum“, fjallar Gunnlaugur um þrjár kvikmyndir frá Ungverjalandi, Bandaríkjunum og Danmörku í ljósi tilvísana þeirra til Jobsbókar í Gamla testamentinu. Líkt og Jobsbók fjalla kvikmyndirnar allar um þjáningu réttláts og trúaðs fólks.

Í þessu hefti Ritraðar Guðfræðistofnunar er einnig birtur fyrirlestur Gordons Lathrop sem hann flutti við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands er hann tók við heiðursdoktorsnafnbót frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild 3. nóvember síðastliðinn. Fyrirlesturinn ber titilinn „“Tæpti ég mínum trúarstaf á tréð, sem drýpur hunang af“: The Hebrew Scriptures in Christian Liturgical Use“.

Undir fyrirsögninni „Guðmundar sögur biskups: Andmæli við doktorsvörn“ birtir Hjalti Hugason andmæli sín við doktorsritgerð Gunnvarar Sigríðar Karlsdóttur, "Guðmundar sögur biskups: Þróun og ritunarsamhengi" (Háskóli Íslands, Hugvísindasvið, Íslensku- og menningar-deild, Reykjavík, 2017).

Þá birtast fjórir ritdómar í Ritröðinni að þessu sinni: Gunnlaugur A. Jónsson skrifar ritdóm um bókina "Lúther: Ævi — áhrif — arfleifð" eftir Karl Sigurbjörnsson (2017), Hjalti Hugason fjallar um bókina "Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir" eftir Steinunni Kristjánsdóttur (2017), Stefán Einar Stefánsson beinir sjónum sínum að bókinni "Jerusalem: The Temple Mount" eftir Leen og Kathleen Ritmeyer (2015) og Þorgeir Arason skrifar ritdóm um "Sigurjónsbók: Afmælisrit til heiðurs Sigurjóni Árna Eyjólfssyni sextugum" (2017).

Hér má nálgast nýtt hefti Ritraðar Guðfræðistofnunar í rafrænni útgáfu.

Kápa ritraðar Guðfræðistofnunar