Skip to main content
31. maí 2018

Freysteinn í Evrópsku vísindaakademíuna

""

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur og vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, hefur verið kjörinn í Evrópsku vísindaakademíuna (Academia Europaea) fyrir fræðastörf sín og framlag til rannsókna í Evrópu. 

Freysteinn lauk BS- og MS-gráðu í jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands og doktorsgráðu í sömu grein frá University of Colorado. Hann var forstöðumaður Norrænu eldfjallastöðvarinnar á árunum 1999-2004 og hefur síðan þá gegnt starfi vísindamanns við Norræna eldfjallasetrið eftir að það varð hluti af Jarðvísindastofnun Háskólans.  

Rannsóknaráherslur Freysteins liggja m.a. á sviði eldfjallafræði, flekahreyfinga og annara jarðskorpuhreyfinga og hefur hann verið afar virkur í alþjóðlegur rannsóknasamstarfi. Hann stýrði t.d. hinu stóra samevrópska FUTUREVOLC-verkefni á árunum 2012-2016. Markmið þess var að koma á fót samhæfðu vöktunarkerfi á eldfjöllum, þróa nýjar aðferðir til að meta hættu á eldgosum, efla skilning á myndun og hreyfingu kviku í jarðskorpunni, bæta gæði mælinga á stærð og afli eldgosa og bæta upplýsingagjöf til almannavarna og yfirvalda, ekki síst með tilliti til flugsamgangna. Verkefnið hlaut um sex milljóna evra styrk frá Evrópusambandinu sem er einn sá hæsti til verkefnis sem íslenskur vísindamaður hefur leitt. Freysteinn tekur nú m.a. þátt í framhaldsverkefninu EUROVOLC sem einnig hefur hlotið styrk frá Evrópusambandinu en það hófst í febrúar síðastliðnum. Þar vinna evrópskar vísinda- og vöktunarstofnanir í eldfjallafræði að því að samþætta og opna aðgengi að innviðum til rannsókna og vöktunar á eldfjöllum. 

Af öðrum verkefnum Freysteins má nefna svokallaðar bylgjuvíxlmælingar úr radargervitunglum. Þá er unnið úr radargervitunglamyndum sem teknar eru á mismunandi tímum til að meta hreyfingar jarðskorpunnar með allt að 5-15 mm nákvæmni. Nota má niðurstöðurnar til að segja til um þau ferli sem eiga sér stað neðanjarðar, t.d. kvikuhreyfingar fyrir og í eldgosum. 

Rannsóknaráherslur Freysteins liggja m.a. á sviði eldfjallafræði, flekahreyfinga og annara jarðskorpuhreyfinga og hefur hann verið afar virkur í alþjóðlegur rannsóknasamstarfi. Hann stýrði t.d. hinu stóra samevrópska FUTUREVOLC-verkefni á árunum 2012-2016. Markmið þess var að koma á fót samhæfðu vöktunarkerfi á eldfjöllum, þróa nýjar aðferðir til að meta hættu á eldgosum og bæta upplýsingagjöf til almannavarna og yfirvalda, ekki síst með tilliti til flugsamgangna.

Evrópska vísindaakademían var stofnuð fyrir þrjátíu árum, árið 1988, og aðild að henni eiga evrópskir vísindamenn á ýmsum fræðasviðum, þar á meðal á sviði raunvísinda og tækni, lífvísinda og læknisfræði, stærðfræði, hugvísinda og bókmennta, félags- og mannvísinda, hagfræði og lögfræði.

Evrópska vísindaakademían veitir m.a. ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum ráðgjöf á sviði vísinda og fræða í Evrópu, hvetur til rannsóknasamstarfs þvert á landamæri og fræðigreinar með sérstaka áherslu á viðfangsefni sem tengjast Evrópu, stuðlar að framúrskarandi vísinda- og fræðastarfi og kennslu innan Evrópu og miðlar til almennings mikilvægi þekkingarleitar og vísindastarfs. 

Akademían vekur jafnframt athygli á framúrskarandi vísindastarfi og fræðimennsku innan Evrópu og veitir árlega vísindamönnum, sem standa framarlega á sínu fræðasviði, inngöngu í Akademíuna að undangenginni tilnefningu og kjöri innan ráðs Akademíunnar. Aðildarfélagar í Evrópsku akademíunni eru nú um fjögur þúsund, þar á meðal yfir 70 Nóbelsverðlaunahafar, og er Freysteinn þriðji fræðimaðurinn við Háskóla Íslands sem fær inngöngu í hana. Áður höfðu þau Ástráður Eysteinsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild, og Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild, fengið inngöngu, bæði árið 2012.

Freysteinn Sigmundsson