Skip to main content
24. júní 2022

Framúrskarandi lokaverkefni á bakkalárstigi hlaut viðurkenningu

Framúrskarandi lokaverkefni á bakkalárstigi hlaut viðurkenningu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sólveig Björnsdóttir og Svala Júlía Gunnarsdóttir hlutu á dögunum viðukenningu úr sjóði Ásgeirs S. Björnssonar fyrir lokaverkefni til bakkalárprófs við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ritgerð Sólveigar og Svöru ber heitið: „Kennslan verður skemmtilegri“ – Reynsla kennara af að nýta óhefðbundar kennsluaðferðir í samfélagsgreinum og nutu þær leiðsagnar Írisar Ellenberger, dósent við Menntavísindasvið. Í umsögn dómnefndar segir: „Ritgerðin er mjög vel skrifuð, segir frá sjálfstæðri rannsókn með eigindlegum rannsóknaraðferðum þar sem könnuð var reynsla kennara af að nýta óhefðbundnar kennsluaðferðir í grunnskólum: viðtölum við nokkra grunnskólakennara á höfuðborgarsvæðinu sem kenna samfélagsgreinar á unglingastigi. Rannsóknin er vel unnin og áhugaverð, og frágangur er vandaður. Skrifin eru fagleg og á það ekki síður við um fræðilega kaflann, niðurstöður og lokaorðin.  Hvernig höfundar hafa safnað gögnum og unnið úr þeim er að mati dómnefndar afrek á bakkalárstigi.“ 
Í greinargerð leiðbeinanda kom fram: „Í verkefninu lögðu [Sólveig og Svala Júlía] upp með að kynna sér óhefðbundnar kennsluaðferðir í samfélagsgreinakennslu, sérstaklega sögukennslu, og svara spurningum um nauðsynlegar forsendur og áhrif slíkra kennsluaðferða á kennslu kennara og nám nemenda. [Þær] leggja upp með að svara spurningunum: Hvers vegna hverfa sumir kennarar frá hefðbundnum kennsluaðferðum í samfélagsgreinum? Hvaða áskoranir og tækifæri felast í að nýta sér óhefðbundnar kennsluaðferðir í samfélagsgreinum? Hver hafa viðbrögð skólastjórnenda, samkennara og nemenda verið gagnvart óhefðbundnum kennsluaðferðum í samfélagsgreinum?

Viðurkenningarnar voru afhentar við hátíðlega athöfn þann 22. júní Stakkahlíð húsi Menntavísinda Háskóla Íslands.

Um Minningarsjóð Ásgeirs S. Björnssonar
Minningarsjóður Ásgeirs S. Björnssonar var stofnaður til minningar um Ásgeir sem var lektor í íslensku við Kennaraháskólann um árabil. Hann lést langt fyrir aldur fram árið 1989. Markmið sjóðsins er að efla ritsmíð við Menntavísindasvið Háskóla Íslands með því að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi B.Ed.-, BS- og BA-verkefni. Stjórn sjóðsins skipa: Heimir F. Viðarsson (MVS), formaður, Ólafur Páll Jónsson (MVS), Sigríður Ólafsdótitir (MVS) og Eiríkur Rögnvaldsson (fulltrúi Hagþenkis)

Myndir: Kristinn Ingvarsson

Sólveig Björnsdóttir og Svala Júlía Gunnarsdóttir hlutu viðurkenningu úr Ásgeirssjóði 2022.