Framtíðardagar í Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content

Framtíðardagar í Háskóla Íslands

9. febrúar 2018

Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands stendur fyrir metnaðarfullri dagskrá á Framtíðardögum 12. - 16. febrúar sem ætlað er að aðstoða stúdenta og aðra áhugasama við  undirbúning fyrir atvinnulífið. Sérfræðingar innan Háskóla Íslands og fulltrúar víða úr íslensku atvinnulífi taka virkan þátt í dagskránni.

Á Framtíðardögum verður sjónum beint að því hvernig stúdentar geta nýtt margvísleg tækifæri sem gefast í námi innan Háskóla Íslands til að auðga reynslu sína sem síðar getur gert þá að eftirsóknarverðum starfskröftum.

Dagskrá Framtíðardaga verður í anda starfsferilskrár þar sem áhersla er á einstaklinginn sjálfan, menntun hans, störf, reynslu og fagleg tengsl. Hún hefst mánudaginn 12. febrúar kl. 11 með ávarpi rektors en í framhaldinu mun Jóhanna Ella Jónsdóttir, mannauðstjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, fjalla um ánægju í starfi og þau Sigurlaug Jónsdóttir og Andri Hrafn Sigurðsson, ráðgjafar í ráðningum frá Capacent, ræða um lykilatriði sem þarf að hafa í huga við atvinnuleit. 

Boðið verður upp á dagskrá alla daga vikunnar milli kl. 11 og 13 á Litla torgi Háskólatorgs þar sem bæði stúdentar og fólk víða úr atvinnulífinu deilir reynslu sinni á vinnumarkaði.

Fjallað verður um margvísleg málefni:
•    Hvernig best er að leita að starfi með góðri ferilskrá 
•    Hvernig skiptinám og starfsþjálfun erlendis getur aukið starfsmöguleika stúdenta
•    Hvernig best er að haga undirbúningi þannig að niðurstaðan verði atvinnutilboð
•    Mikilvægi faglegs orðspors og faglegs tengslanets

Þá mun fjármála- og atvinnulífsnefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands taka þátt í dagskránni þar sem núverandi og fyrrverandi stúdentar segja frá því hvernig þátttaka í margvíslegu félagsstarfi og verkefnum innan Háskólans hefur hjálpað þeim að feta sig áfram á vinnumarkaði. Enn fremur mun Magnús Magnússon, starfsmaður Booking.com á Íslandi, deila reynslu sinni af störfum fyrir þetta stærsta netferðaþjónustufyrirtæki heims. Tengslatorg HÍ, vefur sem helgaður er atvinnumálum stúdenta, verður kynntur rækilega og sömuleiðis möguleikar LinkedIn til að efla faglegt tengslanet.

Eitt meginhlutverk Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands (NSHÍ) er að styðja stúdenta í námi og aðstoða þá við að varða leið þeirra út á vinnumarkaðinn. Með Framtíðardögum vill NSHÍ undirstrika mikilvægi þess fyrir stúdenta að vera færir um að stjórna eigin starfsferli og beina sjónum að tengingu náms og starfa, menntunar og atvinnulífs.  

Nánari upplýsingar um dagskrá Framtíðardaga má finna á vef Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands.
 

Nemendur á göngu á háskólasvæðinu