Framleiddu myndskeið um stólaleikfimi fyrir eldra fólk | Háskóli Íslands Skip to main content
4. júní 2019

Framleiddu myndskeið um stólaleikfimi fyrir eldra fólk

„Hreyfing er mikilvæg fyrir fólk á öllum aldri. Við völdum að gera verkefni um stólaleikfimi vegna þess að okkur finnst nauðsynlegt að eldra fólk geti stundað æfingar heima til þess að viðhalda eigin heilsu. Okkur fannst einnig vanta að slíkar æfingar væru aðgengilegar fyrir alla,“ segja þær Eyrún Lind Árnadóttir og Lilja Skaptadóttir, nemar á lokaári BS-náms í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Þær stöllur framleiddu nýverið nokkur myndskeið um stólaleikfimi fyrir eldra fólk sem birt hafa verið á vefsíðunni Heilsuvera.is. Í myndskeiðunum má finna liðkandi og styrkjandi æfingar sem auðvelt er að gera þó hreyfifærni sé ef til vill skert. Æfingarnar eru gerðar sitjandi á stól og hver æfing er útskýrð vel.

Myndskeiðin voru lokaafurð námskeiðsins Heilsurækt og vettvangur sem kennt er í grunnnámi í íþrótta- og heilsufræði. Lokaverkefni námskeiðsins fólst í því að nemendur þróuðu æfingaáætlun sem innihélt 8-12 æfingar fyrir almenning en á námskeiðinu er lögð áhersla á að nemendur þjálfist í kennslu og skipulagi líkams- og heilsuræktar. 

Heilsuvera er vefur fyrir almenning um heilsu og áhrifaþætti hennar. Um er að ræða samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embættis landlæknis sem hefur það að markmiði að koma á framfæri til almennings áreiðanlegri þekkingu um þroska, heilsu og áhrifaþætti heilbrigðis. 

Hægt er að horfa á myndskeiðin HÉR. 

Eyrún Lind Árnadóttir og Lilja Skaptadóttir, nemar í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands framleiddu nýverið nokkur myndskeið um stólaleikfimi fyrir eldra fólk sem birt hafa verið á vefsíðunni Heilsuvera.is.