Skip to main content
29. janúar 2020

Framhaldsskólanemar fjölmenna í Háskólaherminn

Framhaldsskólanemar fjölmenna í Háskólaherminn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrjú hundruð framhaldsskólanemar eru væntanlegir í Háskóla Íslands dagana 30. og 31. janúar til þess að taka þátt í Háskólaherminum sem nú fer fram í fimmta sinn. Vinsældir verkefnisins eru slíkar að það fylltist í öll sætin á sex mínútum þegar opnað var fyrir skráningu.

Háskólahermirinn hefur það að markmiði að gefa ungu fólki tækifæri til að kynnast starfsemi og námsframboði Háskólans af eigin raun og átta sig betur á tengslum námsvals og starfa. Um leið er ætlunin að styðja það í að taka upplýsta og vel ígrundaða ákvörðun um nám og starf í framtíðinni og átta sig betur á tengslum þess sem þeir eru að fást við í framhaldsskólanum og þess sem tekur við. Jafnframt er verkefnið liður í að efla samstarf Háskóla Íslands við framhaldsskóla landsins.

Með því að taka þátt í Háskólaherminum gefst framhaldsskólanemum kostur á að vera virkir þátttakendur í háskólasamfélaginu. Hver og einn nemandi heimsækir fjögur af fimm fræðasviðum skólans og kynnir sér námsframboð í gegnum lifandi og fjölbreytta dagskrá og verkefni. Lögð er áhersla á að verkefnin á sviðunum séu fjölbreytt og gefi mynd af hagnýtingu námsins að því loknu. Dagskráin fer fram víða á háskólasvæðinu sem gefur þátttakendum jafnframt tækifæri á að kynna sér aðstöðu og víðtæka þjónustu skólans við nemendur.

Vinsældir viðburðarins hafa aukist ár frá ári og til marks um það fylltist í öll 300 sætin í Háskólherminum á um sex mínútum þegar opnað var fyrir skráningar 16. janúar sl. Um 140 framhaldsskólanemar skráðu sig enn fremur á biðlista. 

Framhaldsskólanemarnir sem taka þátt að þessu sinni koma úr öllum landsfjórðungum og taka flestir framhaldsskólar landsins þátt í verkefninu, eða 23. 

Hægt verður að fylgjast með því sem á daga þátttakenda drífur á Facebook-síðu Háskólahermisins.

Nemendur í Háskólaherminum 2019