Skip to main content
31. ágúst 2018

Fræðsla og fjör á Nýnemadögum í Háskóla Íslands

Það verður nóg um að vera á háskólasvæðinu dagana 3.-7. september þegar Nýnemadagar fara fram í Háskóla Íslands. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá alla vikuna þar sem fræðsla, fjör og skemmtun ræður ríkjum.

Mánudaginn 3. september kl. 11.30-13.00 verður glæsileg kynning á þeirri þjónustu sem nemendum stendur til boða á Háskólatorgi. Þarna er kjörið tækifæri til að fá hinar ýmsu upplýsingar beint frá rétta fólkinu. Nemendur geta til að mynda hitt starfsfólk frá Náms- og starfsráðgjöf, Skrifstofu alþjóðasamskipta, Nemendaskrá, Tungumálamiðstöð, Landsbókasafni og Ritveri og sérfræðing í Smáuglunni – appi Háskóla Íslands. Á staðnum verða líka jafnréttisfulltrúi skólans og fulltrúar frá Stúdentaráði, Háskólakórnum, fagráði HÍ um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, jafnréttisnefnd SHÍ, Q - félagi hinsegin stúdenta og femínistafélagi HÍ. Strætó og Zipcar kynna nemakortið, sérstakt tilboð á árskorti fyrir nemendur sem að auki gefur aðgang að Zipcar í klukkustund á mánuði. 

Stúdentaráð býður nýnemum í gönguferð um háskólasvæðið kl. 12.30 og einnig verður opið upplýsingaborð fyrir nýnema alla vikuna frá kl. 10-14 á Háskólatorgi. 

Þriðjudaginn 4. september kl. 12 taka meðlimir Háskóladansins sporið á Háskólatorgi og kynna í leiðinni dansnámskeið sem eru í boði. Stúdentaráð verður aftur með gönguferð um háskólasvæðið kl. 12.30 og það er um að gera að skella sér með og kynnast í leiðinni öðrum nemendum. Örnámskeið um Ugluna, SmáUgluna, 365, eduroam og fleira í umsjá Upplýsingatæknisviðs skólans verður kl. 12.20-12.50 í stofu HT-300. Þá býður Tungumálamiðstöð upp á opið örnámskeið í þýsku fyrir byrjendur kl. 16.00-16.40 í Veröld, stofu 231. 

Miðvikudaginn 5. september kl. 12 stígur söngkonan GDRN á stokk á Háskólatorgi og heldur tónleika fyrir gesti og gangandi. Enginn ætti að láta hennar ljúfu tóna fram hjá sér fara.  Fulltrúar frá Skrifstofu alþjóðasamskipta kynna möguleika á námsdvöl um allan heim, þá styrki sem í boði eru og hvernig umsóknarferli er háttað kl. 12.30-12.50 í stofu HT-300 á Háskólatorgi. Örnámskeið í ítölsku fyrir byrjendur verður haldið kl. 16.00 - 16.40 í Veröld, stofu 231, í boði Tungumálamiðstöðvar. Það er um að gera að mæta enda námskeiðið opið öllum áhugasömum meðan húsrúm leyfir.  

Fimmtudaginn 6. september kl. 12 syngur Háskólakórinn fyrir gesti og gangandi á Háskólatorgi ásamt því að kynna kórstarfið. Þeir sem hafa áhuga á franskri tungu eru hvattir til að mæta á örnámskeið í frönsku fyrir byrjendur kl. 16.00-16.40 í boði Tungumálamiðstöðvar þennan dag. Námskeiðið er haldið í Veröld, stofu 231. 

Föstudag 7. september lýkur Nýnemadögum með árlegu Nýnemamóti Stúdentaráðs Háskóla Íslands þar sem keppt verður í fótbolta á túninu fyrir framan Aðalbyggingu. Keppnin er á milli nemendafélaga og mega allir nemendur HÍ taka þátt. Hvert nemendafélag má senda til leiks nokkur lið en skylda er að það séu a.m.k. tveir nýnemar í hverju liði. Skráning fer fram í gegnum nemendafélög. 

Upplýsingaborð á Háskólatorgi verður sem fyrr segir opið kl. 10-14 alla vikuna en þar geta nýnemar og aðrir fengið svör við ýmsum spurningum sem brenna á þeim í upphafi skólaárs. 

Í tengslum við Nýnemadaga verður efnt til spurningaleiks á Uglunni en hægt er að taka þátt í honum fram til kl. 13 föstudaginn 7. september. Dregið verður úr réttum svörum kl. 14 þann dag.

Allir nýnemar og aðrir stúdentar eru hvattir til að taka þátt í dagskrá Nýnemadaga og að fylgjast með Háskóla Íslands á samfélagsmiðlunum Facebook, Twitter, Instagram, YouTube og snapchat undir „haskolasnappid“.

frá nýnemadögum 2017