Fræðigreinar um menntun og réttlæti á Norðurlöndum | Háskóli Íslands Skip to main content

Fræðigreinar um menntun og réttlæti á Norðurlöndum

25. febrúar 2018

Akademískir starfsmenn Menntavísindasviðs eru í öflugu samstarfi við fræðimenn á Norðurlöndum. Í febrúar kom út hefti tímaritsins Education Inquiry en í því eru átta greinar eftir fræðafólk sem hefur starfað saman síðustu fimm ár undir merkjum norræna öndvegissetursins Justice Through Education in the Nordic Countries. Auk þess er í heftinu inngangsgrein Gunillu Holm, prófessors við Helsinki-háskóla, sem hefur stýrt öndvegissetrinu.

Í heftinu eru fimm greinar þar sem sjö íslenskir höfundar af Menntavísindasviði eiga hlutdeild í. Greinunum er ætlað það hlutverk að ræða ýmsa þætti hins svokallað norræna líkans um menntun og réttlæti.

Jón Ingvar Kjaran er einn af höfundum greinarinnar Nordic discourses on marginalisation through education ásamt finnskum og sænskum kollegum. Greinin byggist á gagnrýnni orðræðugreiningu á ritrýndum greinum sem fjalla um það hvernig menntakerfið á Norðurlöndum jaðarsetur ákveðinn hóp nemenda. Markmið greinarinnar er að skoða hvernig menntakerfið á Norðurlöndum jaðarsetur suma nemendur en aðra ekki.

Kristín Björnsdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson skrifuðu greinina Nordic perspectives on disability studies in education: a review of research in Finland and Iceland ásamt finnskum höfundum. Þau fóru yfir ritrýndar greinar í íslenskum fræðitímaritum á tímabilinu 2007–2016 til að kortleggja áhrif fötlunarfræði í menntarannsókum og það sama gerðu Finnarnir við finnsk tímarit.

Elsa Eiríksdóttir og Guðrún Ragnarsdóttir eru höfundar að greininni The academic–vocational divide in three Nordic countries: implications for social class and gender ásamt finnsku og sænsku samstarfsfólki. Í greininni er fjallað um skiptingu framhaldsskólastigsins í bóknáms- og verknámsgreinar. Fjallað var sérstaklega um áhrifin af þessari skiptingu á misrétti stétta og kynja.

Berglind Rós Magnúsdóttir skrifaði greinina Deregulation, privatisation and marketisation of Nordic comprehensive education: social changes reflected in schooling ásamt sænskum, finnskum og dönskum kollegum. Höfundarnir rannsökuðu hvernig regluslökun, markaðsvæðing og einkavæðing hafa breytt grunnskólakerfum Norðurlandanna á tiltölulega líkan hátt í löndunum fimm.

Jón Torfi Jónasson er einn af höfundum greinarinnar Access and stratification in Nordic higher education. A review of cross-cutting research themes and issues ásamt finnskum, sænskum og norskum samstarfsmönnum. Farið var yfir rannsóknir á því hvernig aðgengi að háskólamenntun er ólíkt með hliðsjón af kyni, aldri, stétt og því hvort um er að ræða innflytjendur.

Heftið er í opnum aðgangi á vef Routledge.

Í febrúar kom út hefti tímaritsins Education Inquiry en í því eru átta greinar eftir fræðafólk sem hefur starfað saman síðustu fimm ár undir merkjum norræna öndvegissetursins Justice Through Education in the Nordic Countries. Í heftinu eru fimm greinar þar sem sjö íslenskir höfundar af Menntavísindasviði eiga hlutdeild í. Greinunum er ætlað það hlutverk að ræða ýmsa þætti hins svokallað norræna líkans um menntun og réttlæti.

Netspjall