Skip to main content
7. janúar 2019

Frábær ársbyrjun hjá líf- og heilbrigðisvísindafólki

19. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands fór fram á Háskólatorgi dagana 3. og 4. janúar 2019. Frábær þátttaka, spennandi rannsóknaverkefni og ánægja gesta einkenndu ráðstefnuna. 

Samhliða málstofur og veggspjaldakynningar með leiðsögn

Dagskráin var að venju mjög fjölbreytt en 240 rannsóknir voru til umfjöllunar, bæði í formi erinda og veggspjalda. Málstofur fóru fram samhliða í fjórum sölum í einu báða dagana og þar af voru ávallt ein eða tvær á ensku. Flestir gátu því fundið sér efni við hæfi en viðfangsefnin á ráðstefnunni voru úr flestum greinum líf- og heilbrigðisvísinda. Veggspjaldakynningarnar voru vel heppnaðar. Þar veittu reyndir vísindamenn ráðstefnugestum leiðsögn um ákveðin efnisflokk veggspjalda og höfundar kynntu rannsóknir sínar. Ágrip allra rannsóknanna voru gefin út í fylgiriti Læknablaðsins.

Opnir fyrirlestrar vöktu athygli almennings

Á dagskránni voru einnig gestafyrirlestrar og opnir fyrirlestrar fyrir almenning. Ráðstefnan hófst með gestafyrirlestri Martins Inga Sigurðssonar, sérfræðilæknis í svæfinga-og gjörgæslulækningum á Landspítala og aðjúnkts við Læknadeild. Martin fjallaði um störf sín við opnar hjartaskurðaðgerðir og þau einstöku rannsóknatækifæri sem þær bjóða upp á. Hann greindi einnig frá starfi sínu með Team Heart hjálparsamtökunum í Rúanda. Bergþór Hauksson, þróunarstjóri hjá CCP, flutti gestafyrirlestur í hádeginu 3. janúar. Hann fjallaði um hvernig er hægt að nýta leikjasamfélagið til framfara í vísindum og hvernig spilarar Eve Online hafa m.a. flokkað myndir af próteinum í frumum. Seinni dagurinn hófst með gestafyrirlestri Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur, prófessors við Hagfræðideild HÍ. Tinna fjallaði um hvernig er hægt að meta virði heilsu og lífsgæða en hún leiðir alþjóðlegan rannsóknarhóp sem stundar rannsóknir á verðmati heilsu. 

Almenningi var boðið til opins fyrirlestrar þar sem fjallað var um tvö málefni úr ranni líf- og heilbrigðisvísinda á aðgengilegan og fræðandi hátt. Rúmlega 200 gestir hlýddu á þau Bryndísi Evu Birgisdóttur, prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild, Bertrand Lauth, lektor við Læknadeild og barna- og unglingageðlækni við BUGL og Karl G. Kristinsson, prófessor við Læknadeild og yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Þau Bryndís og Bertrand fjölluðu um áhrif matarræðis á geðraskanir barna en ýmsar rannsóknir benda til tengsla þar á milli. Karl fjallaði um áhrif framleiðsluþátta og uppruna matvæla á bakteríur og fæðuöryggi Íslendinga. Hann geindi m.a. frá því að sýklalyfjanotkun í landbúnaði auki útbreiðslu baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum og það sé ein mesta lýðheilsuógn sem við stöndum fyrir. 

Fjórar vísindakonur verðlaunaðar

Við ráðstefnuslit voru fjórar efnilegar vísindakonur verðlaunaðar fyrir rannsóknir sínar. Kristín Elísabet Allison, doktorsnemi í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlaut hvatningarverðlaun Jóhanns Axelssonar, Priyanka Sahariah, nýdoktor við Lyfjafræðideild, hlaut verðlaun úr Þorkelssjóði, Steinunn Arnars Ólafsdóttir, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Læknadeild, hlaut verðlaun velferðarráðuneytisins og Þórhildur Halldórsdóttir, nýdoktor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, hlaut verðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Sjá nánari umfjöllun um verðlaunin.

Góð fjölmiðlaumfjöllun

Til gamans má geta að margar þeirra rannsókna sem voru til umfjöllunar á ráðstefnunni rötuðu í fjölmiðla. Hægt er að skoða brot af fjölmiðlaumfjölluninni á Facebook síðu ráðstefnunnar

Hér má sjá myndir frá ráðstefnunni.

Frá líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2019