Frá hugmynd til sýndarheimsyfirráða | Háskóli Íslands Skip to main content
11. febrúar 2019

Frá hugmynd til sýndarheimsyfirráða

""

Hilmar Veigar Pétursson, frumkvöðull og forstjóri CCP, fjallar um undrið EVE Online í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 12. febrúar og hann mun ræða mikilvægi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag. Erindið er í fundaröðinni „Nýsköpun – hagnýtum hugvitið“ og kallar hann það „Frá hugmynd til sýndarheimsyfirráða.“  Í erindi sínu ræðir Hilmar Veigar m.a. um suðupott nýsköpunar í samstarfi háskóla og atvinnulífs og hvernig tengslin milli frumkvöðla, fyrirtækja, atvinnulífs og háskóla geta orðið undirstaða framfara. 

Bein útsending frá erindinu

„Þótt það sé mikilvægt að frumvöðlar eins og CCP séu partur af jöfnunni hér á landi má ekki gleyma því að stjórnvöld í svona litlu landi þurfa að hafa mikla aðkomu að nýsköpun. Svo þarf öflugt menntakerfi á hinum kantinum því þetta er iðnaður sem snýst eingöngu um fólk. Það þarf að hjálpa fólki með áhættuna, í gegnum fjárfestingu, með aðkomu ríkisins og með góðum verkfærum. Og svo þurfa háskólarnir að mennta fólkið sem hefur getuna til að taka þátt í svona nýsköpunarverkefnum,“ segir Hilmar Veigar en hann mun stíga á svið klukkan 12 stundvíslega í boði Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands. 

Frumkvöðlar mega ekki gefast upp
Nýsköpun er undirstaða framfara og treystir samkeppnisstöðu okkar Íslendinga til langframa. Í fundaröðinni „Nýsköpun - hagnýtum hugvitið“  er mikilvægi nýsköpunar undirstrikað og Hilmar Veigar mun draga fram mikilvægi frumkvöðlanna í nýsköpunarferlinu.

„Í frumkvöðlastarfsemi er alltaf betra að taka vitlaus skref en engin skref. Það er mikilvægt að gefast ekki upp þegar þú tekur vitlausu skrefin, bara leiðrétta sig á þessum kúrsi,“ segir Hilmar Veigar þegar hann er spurður út í hvað einkenni frumkvöðla. „Ég hef oft sagt að þetta sé í sjálfu sér ekkert rosalega mikið mál. Þú bara gefst aldrei upp. Þannig að þrautseigja er langmikilvægasti eiginleikinn.“ 

Hilmar Veigar er einn af stofnendum hátæknifyrirtækisins CCP sem ýtt var úr vör árið 1997. Hann hefur verið leiðandi í velgengni og vexti CCP frá því hann tók við stjórnartaumum í fyrirtækinu. Helsta afurð CCP, EVE Online, kom á markað í maí árið 2003 og hefur notið sigurgöngu æ síðan og fyrirtækið er margverðlaunað fyrir árangur sinn á sviði þróunar og markaðssetningar í tölvuleikjaiðnaði.

Áhætta og nýsköpun fylgjast að

Áður en Hilmar Veigar tók við stjórnartaumum hjá CCP var hann yfir tæknimálum hjá fyrirtækinu og leiddi þá tækniþróun sem býr að baki sýndarheimi EVE Online og þrívíddartækninnar sem stuðst er við í afurðum CCP. Hann er með B.Sc.-gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og hefur vakið feiknarathygli fyrir skoðanir sínar á þróun, nýsköpun og mikilvægum stuðningi við sprotafyrirtæki. Hann hefur haldið fyrirlestra um sköpunarverk CCP og nýsköpun víða um heim og nýsköpun fylgir áhætta.

„Alltaf þegar áhætta er annars vegar verða allir voðalega stressaðir en nýsköpun og áhætta fylgjast að. Ríkið á að hafa aðkomu að nýsköpun og taka þátt í áhættunni, eins og gert var með bíómyndir á sínum tíma, og að mörgu leyti má horfa á tónlist á sama veg.  Íslendingar hafa fjárfest í  tónlistarskólum og tónlistarkennslu. Ef horft er á hversu miklu við verjum af hagstærðinni í tónlistarmenntun þá er ekkert skrítið að við eigum svona mikið af afburða tónlistarfólki. Eins er með kvikmyndirnar. Ef við horfum á hugverk, tölvuleiki og annað slíkt, er alveg hægt að ná sama árangri ef fólk er fylgið sér og sækir fram á við og tekur ákvörðun um að gera það.“

CCP flytur í Grósku á Háskólasvæðinu 
Í erindi sínu mun Hilmar Veigar án efa koma inn á flutninga CCP inn á Háskólasvæðið, en bygging Grósku stendur nú yfir í Vatnsmýrinni sem verður heimili CCP og fjölda sprotafyrirtækja. Gróska er partur Vísindagörðum Háskóla Íslands. 

„Með því að fara nær háskólasamfélaginu standa vonir okkar til þess að næstu tuttugu árin,  sem við erum að sýsla í þessu, getum við tengt betur saman ungt og efnilegt fólk
á Íslandi og þá sérfræðiþekkingu sem við höfum skapað sjálf,“ segir Hilmar. 

„Með því að færa okkur nær uppsprettunni, sem er vissulega á háskólasvæðinu, vonumst við til að geta blandað þessu betur saman en við höfum gert síðustu tuttugu árin. Ég er að vonast til þess að við sérstaklega,  sem höldum stundum að við séum með svo mikil leyndarmálum, komumst aðeins yfir það og náum meira að dreifa okkar þekkingu og taka við hugmyndum annars staðar frá. Vera ekki að tapa okkur í því að passa öll okkar leyndarmál,  sem að vissu leyti eru einhver leyndarmál en kannski ekki hernaðarleyndarmál, þannig að eitthvað þarf maður að gefa eftir til að fá annað í staðinn. Með því að blanda okkur saman við önnur fyrirtæki og háskólasamfélagið þá verður úr einhver skapandi grautur sem mun færa okkur eitthvað nýtt, sem mun eiga erindi við okkur næstu tuttugu árin. Ég hef trú á því að það muni gefa okkur eitthvað nýtt sem við vitum ekkert hvað er. Það eru nú elementin með þessa nýsköpun. Maður verður að hafa hugrekki til að taka skref  í einhverja átt sem maður veit ekki hverju nákvæmlega skilar en treysta því að það komi eitthvað óvænt og skemmtilegt út úr því.“

Nýsköpun er partur af menningunni
Hilmar Veigar hefur talað um að kraftur Íslendinga til nýsköpunar liggi í menningunni. „Ég held að það sé á margan hátt menningin sem skapar sérstöðu fyrir okkar nýsköpun og það er eitthvað sem við ættum að ýta undir. Hér erum við að einhverju leyti að skapa athafnaskáld. Þú finnur ekki orð eins og athafnaskáld í örðum löndum,“ segir Hilmar og bætir því við að nýsköpun tengist meira iðnaði í útlöndum. „Athafnaskáld Íslands, hvort sem það eru Halldór Laxness eða Björk, þau eru fyrirmyndirnar sem við horfum til. Að mörgu leyti er það einhvers konar skáldskapur sem við gerðum hér með EVE Online og CCP. Öll þessi frásagnarhefð á Íslandi, alveg frá Íslendingasögunum til Nóbelsverðlaunaskáldsins Halldórs Laxness og að mörgu leyti til EVE Online. Þetta er að einhverju leyti frásagnarmenning sem er til staðar á Íslandi. Hana væri hægt að beisla miklu meira á netinu en við höfum nú þegar gert með nýsköpun og þannig skapað aukin viðskiptatækifæri. Þjóð sem á Nóbelsverðlaunaskáld, Arnald með glæpasögurnar, allar bíómyndirnar, alla tónlistina og tölvuleiki eins og EVE Online. Það er augljóslega eitthvað sem við höfum fram að færa sem þjóð.“

Erindi Hilmars Veigars hefst klukkan 12 og eru allir velkomnir. Streymt verður frá erindinu.