Fornleifarannsóknir með sýndarköfun | Háskóli Íslands Skip to main content
16. október 2019

Fornleifarannsóknir með sýndarköfun

Fornleifarannsóknir með sýndarköfun - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindamenn við Háskóla Íslands og Flinders-háskóla í Ástralíu hafa þróað sýndarveruleika sem gerir hverjum sem er kleift að „kafa“ umhverfis flak hollenska kaupskipsins Melckmeyt eða Mjaltastúlkunnar sem strandaði við Flatey á Breiðafirði á þessum degi fyrir réttum 360 árum. 

Með þessu hefur vísindamönnum tekist að flétta saman upplýsingatækni, sýndarveruleika, fornleifafræði og sagnfræði en í stefnu Háskóla Íslands er sérstök áhersla á að nýta upplýsingatækni betur í starfi hans. Það má því segja að rannsóknin nálgist viðfangsefnið með algerlega nýjum aðferðum. Vísindamennirnir birta einnig grein um rannsóknina og nýstárlegar birtingarleiðir á niðurstöðum hennar í tímaritinu IEEE Proceedings.

„Meginafurð rannsóknanna, doktorsritgerðin mín, verður hugsanlega lesin af innan við hundrað manns en með þessari nálgun er mögulegt að þúsundir – jafnvel milljónir geti hagnýtt sér niðurstöðurnar á afar skemmtilegan hátt,“ segir Kevin Martin, doktorsnemi við Háskóla Íslands, en hann leiddi rannsóknina á flakinu. Hún tengist doktorsverkefninu hans þar sem einokunarverslun Dana er í fókus, frá árinu 1602 til 1787.  

„Með sýndarveruleikanum er hægt að kafa að flakinu í raun án þess að dýfa stóru tánni í vatn,“ segir Kevin og hlær. „Okkur hefur tekist að útbúa sjávarbotninn í þrívídd í háskerpu þannig að fræðilega séð gæti almenningur sem skoðar þetta jafnvel komið auga á eitthvað á flakinu sem við höfum misst af í okkar köfun!“

Algerlega ný nálgun með stafrænni fornleifafræði

Flakið af Mjaltastúlkunni fannst árið 1992 en það hefur varðveist einkar vel.  Rannsóknir hafa farið fram á því undanfarin ár sem Kevin Martin hefur leitt ásamt vísindamönnum frá Hollandi og Ástralíu en leiðbeinandi hans er Gavin Lucas, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands. 

Að Kevins sögn hafa sérfræðingar í stafrænni fornleifafræði við Flinders-háskóla borið höfuðþungann af þróun lausnarinnar sem gerir öllum kleift að fara í könnunarleiðangur að flakinu.  „Upplifunin er í þrívídd og í 360 gráðu viðmóti. Með lausninni er reynt að birta flakið sjálft eins og það leit út augnabliki eftir að það sökk,“ segir Kevin. 

Köfunin er nú aðgengileg á YouTube

Sýndarköfunin, sem var upphaflega gerð fyrir sýningu á Sjóminjasafinu í Reykjavík, tekur þrjár mínútur og með ákveðnum búnaði, sýndarveruleikagleraugum og heyrnartólum, er hægt að snúa höfði í allar áttir og upplifa breytingar á umhverfi með hliðsjón af hreyfingum kollsins og hlusta á umhverfishlóð úr djúpinu. Einnig er hægt að kafa með því að nota snjalltæki, síma eða spjaldtölvu. 

Rannsóknarhópurinn sem stundaði rannsóknir á Mjaltastúlkunni við Flatey.  John McCarthy (Flinders University), Kevin Martin (Háskoli Íslands), Fraser Cameron (Iceland Dive Expeditions) og Héðinn Þorkelsson (Diving Island). „Þetta flak og rannsóknir á því eru gríðarlega mikilvægar fyrir sögu Íslendinga og samskipti þeirra við Dani og Hollendinga. Þetta er eitt allra elsta flak sem hefur fundist í þessum heimshluta og það varpar ljósi á tímabil íslenskrar sögu, þegar Danir réðu hér lögum og lofum en þeir höfðu einokun á viðskiptum hér í 200 ár,“ segir Kevin. MYND/Héðinn Þorkelsson

Vopnað hollenskt kaupfar í trássi við lög Dana

Flakið af Mjaltastúlkunni er um 33 metra langt og er talið vera hollenskt af tegund sem var afar algeng á 17. öld.  Reyndust siglingar þessara skipa hingað Íslendingum mikið fagnaðarefni þar sem skipverjar komu færandi hendi með varning sem ekki var fáanlegur hér. Á 17. öld ríkti hér einokun Dana með viðskipti en árið 1659 gerðu Svíar óvænta árás á Kaupmannahöfn sem olli því að dönsk kaupför gátu ekki siglt til Íslands. „Hollendingar gripu því tækifærið og sigldu hingað á þessum skipum sem voru vel vopnuð undir fölsku dönsku flaggi til að eiga kærkomin viðskipti við Íslendinga. Í skiptum fyrir fisk, ullarvörur og lýsi fengu Frónbúar m.a. korn, timbur og keramik,“ segir Kevin.  

„Mjaltastúlkan hreppti mikið óveður á Breiðafirði þann 16. október árið 1659 og fórst skipið í höfninni við Flatey með þeim afleiðingum að einn skipverjanna drukknaði, altjón varð á farmi og eftirlifandi skipbrotsmenn höfðust við í Hafnarey þar til veðrinu slotaði.“

Mikilvægar minjar í íslenskri sögu

Þrátt fyrir að atburðurinn kæmist í íslenska annála gleymdist hann að mestu þar til að kafararnir Erlendur Guðmundsson og Sævar Árnason fundu flakið árið 1992. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur vann svo við merkar rannsóknir á flakinu eftir fundinn. Árið 2016 og 2018 vann Kevin Martin sjálfur rannsóknir á flakinu með samstarfsfólki frá Menningarminjastofnun Hollendinga og fornleifafræðingum frá Flinders-háskóla í Ástralíu en hluti af verkefninu fólst í að gera þrívíddarlíkan af skipinu í háskerpu til notkunar í stafræna veruleikanum. 

Myndband frá fornleifarannsóknunum

„Þetta flak og rannsóknir á því eru gríðarlega mikilvægar fyrir sögu Íslendinga og samskipti þeirra við Dani og Hollendinga. Þetta er eitt allra elsta flak sem hefur fundist í þessum heimshluta og það varpar ljósi á tímabil íslenskrar sögu, þegar Danir réðu hér lögum og lofum en þeir höfðu einokun á viðskiptum hér í 200 ár,“ segir Kevin, sem er írskur en hann hefur búið hérlendis í á annan áratug.
 
Hann segir að tilvist skipsins sýni hvernig Íslendingar og Hollendingar fóru á svig við verslunarbannið þótt að í þessu tilviki hafi viðskiptin ekki lánast alveg vegna skipsskaða en skipið var reyndar fulllestað þegar það fórst.
 
Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynnast nánar eðli rannsóknarinnar og hollenska skipinu er bent á að sýning er nú í gangi sem er helguð Mjaltastúlkunni í Sjóminjasafninu á Granda sem Kevin Martin van í samvinnu við Sjóminjasafnið. „Eitt af markmiðum sýningarinnar var að draga fram mikilvægi fornminja á sjávarbotni fyrir Íslendinga og sögu þeirra og ég held að það hafi náðst.  Sýningin og sýndarveruleikinn hafa fengið mjög jákvæða dóma frá almenningi og einnig frá þeim sem starfa við menningarmiðlun á Íslandi og víðar.“

"Kafari við skiptsflak í sýndarveruleika"