Skip to main content
7. nóvember 2017

Foreldrar oft vannýtt auðlind í læsisnámi barna

Foreldrar oft vannýtt auðlind í læsisnámi barna  - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Foreldrar geta haft áhrif á viðhorf barna sinna til náms, stutt þau til árangurs og leiðbeint skólanum um heppilegar leiðir til að einstaklingsmiða námið,“ segir Gretar L. Marinósson, prófessor emeritus við Menntavísindasvið, en hann mun flytja erindi ásamt Ingibjörgu Auðunsdóttur, sérfræðingi við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, á ráðstefnunni Lestur er lykill að ævintýrum sem fram fer við Háskóla Íslands þann 18. nóvember nk. 

Á dagskrá ráðstefnunnar verða þrír aðalfyrirlestrar og tólf málstofur þar sem fjallað verður um læsi í leik- og grunnskólum. Gretar og Ingibjörg munu kynna niðurstöður nýlegrar rannsóknar um samstarf foreldra og skóla um læsisnám yngstu barnanna en könnunin náði til tæplega þrjú þúsund foreldra víðs vegar um landið. „Við komumst m.a. að því að foreldrar voru almennt ánægðir með læsisnám barna sinna og töldu sig bera meginábyrgð á því að börn þeirra yrðu læs í samstarfi við skóla. Hins vegar var þekking þeirra á skólastarfinu afar takmörkuð.“

Rannsóknin var hluti af stærri rannsókn þar sem rýnt var í Byrjendalæsi, innleiðingu þess í grunnskólastarf og þá aðferð sem beitt er við læsiskennslu undir merkjum þess. Gagna var aflað með viðtölum við foreldra, kennara og nemendur í sex völdum skólum og spurningalista til foreldra. Niðurstöður voru settar í samhengi við alþjóðlega þekkingu og íslenska stefnumótun um læsi og læsismenntun.

Gretar segir flesta foreldra sinna heimanámi barna af samviskusemi en þátttaka þeirra í náminu minnki þegar börnin eldast. Þá skorti á að skólar gefi foreldrum tækifæri til þátttöku í ákvarðanatöku um nám barna sinna og að því leyti séu foreldrar vannýtt auðlind í námi þeirra. „Aðalnámskrá grunnskóla kveður á um samábyrgð foreldra og skóla á læsisnámi barnanna og samstarf á jafnræðisgrunni. Skólar geta tamið sér í ríkara mæli að hafa samráð við foreldra um allt nám barna þeirra, þ.e. undirbúning, framkvæmd kennslu og þróun námsmats. Í dag finnst mörgum foreldrum að þeir fái ekki nógu góðar upplýsingar og séu ekki hafðir með í ráðum. Þeir virðast ekki eiga val um þátttöku því skólinn telur skólastarfið og þar með lestrarkennsluna alfarið sitt mál ef heimanám er frátalið.“ 

Til að bregðast við þessu væri gerlegt að gefa foreldrum val um aukna þátttöku á jafnréttisgrunni, t.d. um gerð námsáætlana og kennslu. „Þar með væri hægt að nýta þá dýrmætu þekkingu sem foreldrar hafa á þörfum barna sinna og skólastarfið myndi njóta góðs af,“ segir Gretar að endingu en þess má geta að bók um rannsóknina er væntanleg um næstu áramót.

Gretar L. Marinósson, prófessor emeritus við Menntavísindasvið, mun kynna niðurstöður nýlegrar rannsóknar um samstarf foreldra og skóla um læsisnám yngstu barnanna á ráðstefnu um læsi þann 18. nóvember við Háskóla Íslands.

Skóli