Foreldra þyrstir í fróðleik um uppeldi barna | Háskóli Íslands Skip to main content

Foreldra þyrstir í fróðleik um uppeldi barna

24. janúar 2019

Fyrsta sameiginlega fræðslukvöld Fróðra foreldra og Menntavísindasviðs var 16. janúar síðastliðinn í Háskóla Íslands og var afar vel heppnað. Yfir hundrað þátttakendur voru mættir til að hlýða á fjögur erindi fræðimanna af Menntavísindasviði undir yfirskriftinni „Er ég að klúðra þessu?“
Sjá einnig: Menntavísindasvið og Fróðir foreldrar í samstarf

Matvendni, áhrif feðra, söngþroski og uppeldishættir
Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði, flutti fyrsta erindi kvöldins sem fjallaði um vandamál sem margir kannast við, matvendni barna. Anna Sigríður stýrir rannsóknaverkefninu Bragðlaukaþjálfun þar sem áhersla er lögð á bætt fæðuval og líðan hjá börnum og unglingum. Anna Sigríður lumar á nokkrum hollráðum til foreldra, t.d. sé mikilvægt að foreldri velji hvað barnið borðar og hvenær. Aftur á móti sé ákjósanlegt að barnið velji hvort það borði og hversu mikið.

Sjá einnig: Bragðlaukaþjálfun gegn matvendni

„Ræðum í stað þess að rífast“ var titill erindis Hrundar Þórarins Ingudóttur, lektors í uppeldis- og menntunarfræði, sem fjallaði um uppeldishætti. Fjöldi rannsókna bendir til að leiðandi uppeldishættir séu heillavænlegir við að efla þroska og velferð barna og ungmenna. Hrund fór aðeins ofan í saumana á samskiptum foreldra og barna, mikilvægi samveru og samræðna og uppeldissýn foreldra og gaf foreldrum góð ráð.

Helga Rut Guðmundsdóttir, dósent í menntunarfræði tónlistar, fjallaði um vægi söngþroska fyrir máltöku barna. Rannsóknir sýna að ungabörn eru ótrúlega fær í að greina mállýskur, tónfall og laglínur. Rétt um eins árs aldur eru börn þegar farin að útiloka málhljóð sem þau hafa aldrei heyrt. Helga segir það gríðarlega mikilvægt að syngja með börnum og halda uppi samræðum við þau frá fyrsta degi.

Sjá einnig: Söngur styður vel við málþroska ungra barna

Að lokum flutti Ársæll Arnarsson, prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði, áhugavert erindi um tengsl feðra og barna. Í máli Ársæls kom með annars fram að rannsóknir hafa leitt í ljós að auðveld samskipti barns við föður tengjast góðri tilfinningalegri líðan, sjálfsáliti og góðri líkamsmynd. Á þetta einkum og sér í lagi við um stúlkur. Samfélög, sem hafa komið á fæðingarorlofi feðra, eru dæmi um stefnubreytingu í þá veru að viðurkenna að hlutverk feðra er ekki síður mikilvægt en mæðra í uppeldi barna. Þá hafa rannsóknir sýnt að þeir feður sem taka fæðingarorlof halda áfram þátttöku í uppeldi barna og mynda jákvæð tengsl við þau. 

Sjá einnig: Eru íslenskir feður þeir bestu?

Athygli vakti að meirihluti gesta á viðburðinum voru áhugasamir karlmenn en hingað til hafa konur tekið meiri þátt í fræðslukvöldum Fróðra foreldra að sögn aðstandenda samstarfsverkefnisins.

Nálgast má upptöku af fræðslufundinum HÉR.

Fyrsta sameiginlega fræðslukvöld Fróðra foreldra og Menntavísindasviðs var 16. janúar síðastliðinn í Háskóla Íslands og var afar vel heppnað.