Skip to main content
27. apríl 2022

Fjöruferð í Gróttu á laugardag

Fjöruferð í Gróttu á laugardag - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Fjörur á Íslandi eru fjölbreytilegar að gerð en það sem ræður mestu um það lífríki sem finnst á hverjum stað er brimasemi og beður. Brimasemi vísar til þess hvort fjaran sé skjólsæl eða ekki og beðurinn vísar til undirlagsins.“ Þetta segir Ragnhildur Guðmundsdóttir líffræðingur og safnkennari sem mun leiða fjöruferð laugardaginn 30. apríl í Gróttu. Fjöruferðin er samstarf Náttúruminjasafns Íslands, Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands. 

„Fjaran við Gróttu er skemmtileg að því leyti að þar er hægt að skoða bæði brimasama þangfjöru en einnig skjólsælli sandfjöru. Það er því hægt að finna mjög fjölbreyttar lífverur á þessum stað,“ segir Ragnhildur sem er í hópi hartnær sextíu þúsund einstaklinga sem Háskóli Íslands hefur útskrifað til áhrifa í íslensku samfélagi frá stofnun skólans árið 1911. Hún er bæði með BS-gráðu og doktorsgráðu í líffræði frá Háskóla Íslands auk diplómagráðu í kennslufræði. Það fer vel á því að Ragnhildur leiði fólk um fjöruna við Gróttu því hún þekkir vel til sjávar þar sem hún stundaði meistaranám í sjávarvistfræði við Háskólann í Tromsø í Noregi og við Háskólasetrið á Svalbarða (UNIS). Því námi lauk með meistaraprófi í sjávarlíffræði. 

Ragnhildur starfar nú sem sérfræðingur hjá Náttúruminjasafni Íslands en þar sinnir hún fræðslu og kennslu á sýningum safnsins auk þess að stunda rannsóknir og gagnaöflun á sviði líffræðilegs fjölbreytileika á Íslandi. 

Fjölbreytt lífríki við Gróttu

Ragnhildur segir að fjörubeðurinn í skjólsælum fjörum sé oft með fínum sandi eða leir og lífríkið sé að finna ofan í leirnum. „Þangað sækja vaðfuglar gjarnan í ætisleit. Brimasamar fjörur eru gjarnan klettafjörur þar sem lífverurnar eru þá fastar við undirlagið. Í þessum fjörum er oft að finna þang en fjöldi hreyfanlegra dýra finnst gjarnan ef leitað er undir þanginu,“ segir Ragnhildur en með henni í för verða fleiri starfsmenn Náttúruminjasafnsins, bæði jarðfræðingar og líffræðingar. 

Í fjöruferðinni í Gróttu er ætlunin að skoða ýmsar lífverur fjörunnar, grúska og leita að kröbbum og öðrum smádýrum. Við Gróttu er fjölbreytt dýra-, fugla- og plöntulíf og þetta er nánast síðasta tækifæri þessa vors að fara út í Gróttu því henni er lokað fyrir allri umferð á varptímanum, frá 1. maí til 15. júlí.

„Fjörur á Íslandi eru fjölbreytilegar að gerð en það sem ræður mestu um það lífríki sem finnst á hverjum stað er brimasemi og beður. Brimasemi vísar til þess hvort fjaran sé skjólsæl eða ekki og beðurinn vísar til undirlagsins.“ Þetta segir Ragnhildur Guðmundsdóttir líffræðingur og safnkennari sem mun leiða fjöruferð laugardaginn 30. apríl í Gróttu.

Fjörur breytast með loftslagi

Fjöldi vísindamanna beinir nú sjónum að áhrifum loftslagsbreytinga á lífríki. Ragnhildur segir að varðandi áhrif loftslagsbreytinga á lífið í fjörunni megi nefna að sjávarstöðubreytingar komi mögulega til með að hafa þar áhrif. 

„Einnig má nefna að súrnun sjávar, sem er ein af afleiðingum loftslagsbreytinga, er talin hafa áhrif á kalkmyndandi lífríkið.“

Mæta vel klædd og í stígvélum

Gott er að mæta vel klædd í fjöruferðina og í stígvélum og með fötur eða glær ílát til að safna í hinum ýmsu lífverum og auðvitað með gott nesti. Gangan tekur 2-3 klst.

Gangan er eins og áður sagði samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Ferðafélags Íslands og Náttúrminjasafns Íslands undir merkjum Með fróðleik í fararnesti. Þúsundir Íslendinga á öllum aldri hafa notið þess að halda í göngur í þessari röð undanfarin ár og þegið fróðleik í fararnesti frá vísindamönnum og sérfræðingum HÍ við nánast hvert fótmál. Í þetta skiptið koma sérfræðingarnir frá Náttúruminjasafni Íslands. 

Göngurnar hafa löngu unnið sér fastan sess en með þeim er aukið við þekkingu fólks, ekki síst ungmenna, á sama tíma og boðið er upp á holla og skemmtilega hreyfingu.

Þátttaka er ókeypis í fjöruferðinni og öll velkomin. Ekkert að panta, bara mæta!

Mæting er kl. 11 á bílastæðið við Gróttuvita.

Fólk í fjörunni við Gróttu