Skip to main content
16. janúar 2020

Fjórar rannsóknir á sviði menntavísinda fengu styrki frá Rannís

Rannsóknasjóður Íslands hefur úthlutað samtals 762 milljónum króna til 55 nýrra rannsóknaverkefna, en tilkynnt var um úthlutunina í gær. Alls bárust 381 umsóknir í sjóðinn en 14% umsókna hlutu styrki.

Fjögur verkefni frá Menntavísindasviði fengu styrki úr sjóðnum að þessu sinni, þrjú verkefnisstyrki og einn doktorsnemastyrk. Styrkirnir eru veittir til þriggja ára. 

Anna Lind G. Pétursdóttir prófessor og Kristen McMaster prófessor við Minnesotaháskóla hlutu styrk til verkefnisins „Mat á framkvæmd félagakennslu í 1. bekk og áhrifum hennar á lestrarfærni nemenda í 1. og 2. bekk.“

Berglind Rós Magnúsdóttir dósent og Ólafur Páll Jónsson prófessor hlutu styrk til verkefnisins „Ungir innflytjendur og flóttafólk í þátttökumiðuðu skólastarfi: Varða á leið til inngildingar og borgaravitundar í Reykjavík, Osló og London.“

Íris Ellenberger lektor hlaut styrk til verkefnisins „Frá kynferðislegum útlögum til fyrirmyndarborgara: Tengsl hinsegin kynverunda og þjóðernis á Íslandi 1944–2010.“

Jóhann Örn Sigurjónsson doktorsnemi hlaut styrk til verkefnisins „Gæði kennslu í stærðfræði á Íslandi og á Norðurlöndum.“

Um Rannsóknarsjóð Íslands
Rannsóknasjóður er opinn samkeppnissjóður sem veitir styrki til vísindarannsókna og rannsóknatengds framhaldsnáms á Íslandi. Sjóðurinn veitir fjórar tegundir styrkja: öndvegisstyrki, sem jafnframt eru meðal hæstu styrkja sem veittir eru til rannsókna hér á landi, verkefnisstyrki innan afmarkaðra fræðasviða, rannsóknastöðustyrki til vísindamanna sem hafa nýlokið doktorsprófi og doktorsnemastyrki. 

Menntavísindasvið óskar styrkhöfum hjartanlega til hamingju.

Sjá einnig: Vísindamenn og doktorsnemar við HÍ fá yfir 40 Rannísstyrki

Rannsóknasjóður Íslands hefur úthlutað samtals 762 milljónum króna til 55 nýrra rannsóknaverkefna, en tilkynnt var um úthlutunina í gær. Alls bárust 381 umsóknir í sjóðinn en 14% umsókna hlutu styrki.  Fjögur verkefni frá Menntavísindasviði fengu styrki úr sjóðnum að þessu sinni, þrjú verkefnisstyrki og einn doktorsnemastyrk.