Fjölþættar aðgerðir gegn kynferðisofbeldi innan HÍ | Háskóli Íslands Skip to main content
13. mars 2018

Fjölþættar aðgerðir gegn kynferðisofbeldi innan HÍ

""

Starfshópur á vegum rektors Háskóla Íslands leggur til fjölþættar aðgerðir til þess að bregðast við og vinna gegn kynferðilegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi innan Háskólans. Aðgerðirnar snúa m.a. að rannsóknum á vandanum, fræðslu til bæði starfsfólks og stúdenta um hvernig fyrirbyggja megi kynferðislega áreitni, einelti og annað ofbeldi innan háskólasamfélagsins og skoðun á því hvort setja megi í siðareglur skólans ákvæði sem snúa að þessum málaflokki. 

Í kjölfar þess að konur í vísindum stigu fram undir merkinu #MeToo og deildu reynslusögum af áreitni og ofbeldi í háskólasamfélaginu skipaði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, starfshóp með það að markmiði að kanna hvaða frekari aðgerða væri þörf svo hægt væri að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni, kynferðislegt ofbeldi og þöggun innan Háskólans. 

Jafnrétti er eitt af þremur grunngildunum í stefnu Háskólans fyrir árin 2016-2021, HÍ21. Þá eru þegar í gildi verklagsreglur um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi innan Háskóla Íslands þar sem skýrt er tekið fram að slíkt ofbeldi sé með með öllu óheimilt. Fagráð Háskóla Íslands tekur við og rannsakar kvartanir og tilkynningar um mál sem upp koma og heyra undir málaflokkinn. 

Í starfshópi rektors sátu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda sem var formaður hópsins, Hanna Ragnarsdóttir, formaður jafnréttisnefndar háskólaráðs, Arnar Gíslason og Sveinn Guðmundsson, jafnréttisfulltrúar skólans. Hópurinn átti fundi með fulltrúum kvenna í vísindum, fulltrúum nemenda og fagráði háskólans um möguleg viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi í háskólasamfélaginu. Starfshópurinn skilaði í framhaldinu inn tillögum til rektors að frekari aðgerðum. Aðgerðirnar eru í 16 liðum og í þeim eru sett fram markmið, ábyrgðaraðilar og tímarammi aðgerða.

Tillögur starfshópsins snúa m.a. að 

-    Aðkomu að rannsókn á umfangi og afleiðingum vandans í gegnum hina umfangsmiklu rannsókn „Áfallasaga kvenna“ undir stjórn Unnar Valdimarsdóttur prófessors. 
-    Könnun meðal nemenda og starfsfólks á umfangi og einkennum kynferðislegrar áreitni, eineltis og annars ofbeldis í Háskóla Íslands. 
-    Athugun á því hvernig megi tryggja að þekking á jafnréttismálum verði hluti af kennaranámi og stjórnendanámi innan skólans. 
-    Reglulegri fræðslu til nemenda um birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni, eineltis og annars ofbeldis og þau úrræði sem skólinn hefur yfir að ráða. 
-    Skipulagðri fræðslu fyrir allt starfsfólk Háskóla Íslands um málefnið. Slík fræðsla myndi einnig ná til undirverktaka á háskólasvæðinu. 
-    Merkingum á nokkrum tungumálum með góðu myndmáli á salernum og víðar þar sem finna mætti fræðslu um og viðbrögð við kynferðislegri áreitni, einelti og öðru ofbeldi. 
-    Möguleika á að setja í siðareglur skólans ákvæði um að kennurum sé óheimilt að eiga í kynferðislegum samskiptum við nemendur og að kaup á vændi séu óheimil þegar starfsfólk ferðast á vegum Háskóla Íslands. 
-    Hnappi á heimasíðu Háskólans þar sem hægt yrði að tilkynna kynferðislega áreitni og kynferðisbrot, jafnvel nafnlaust.
-    Frekari eftirfylgni svo tryggt verði að alvarleg mál sem tengjast samskiptum starfsfólks og nemenda fái rétta meðferð. 
-    #MeToo-frásögnum úr háskólasamfélaginu; að þeim verði fylgt eftir, t.d. með gjörningi eða viðburði á Jafnréttisdögum skólans.

""