Skip to main content
20. október 2022

Fjölmenn ráðstefna um minnisrannsóknir

Fjölmenn ráðstefna um minnisrannsóknir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Samtökin Memory Studies Association Nordic og Rannsóknastofa í minni og bókmenntum við Háskóla Íslands héldu vel sótta ráðstefnu í Veröld í liðinni viku undir yfirskriftinni „Explorations of Counter Memory“. Alls voru fluttir níutíu fyrirlestrar á ráðstefnunni en lykilfyrirlesarar voru þær Magdalena Zolkos, lektor við Jyväskylä-háskóla í Finnlandi, og Eva Maria Fjellheim, rannsakandi og fjölmiðlakona í Noregi. Magdalena fjallaði um nýlendustefnu á norðurslóðum og Eva Maria ræddi um réttindabaráttu Sama, en hún tók einnig þátt í Hringborði Norðurslóða í Hörpu. Hún hefur barist fyrir réttindum Sama í Noregi og fjallaði um það í sínum fyrirlestri hvernig litið hefur verið framhjá þekkingu og reynslu Sama á eigin landi og sögu og hve hægt hefði gengið að jafna hlut þeirra, t.d. í norsku réttarkerfi og söguritun.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, forstöðumaður Rannsóknastofu í minni og bókmenntum og stjórnarformaður MSA Nordic, segir að áhuginn á málþinginu sýni fram á vinsældir minnisrannsókna á sviði hugvísinda um þessar mundir, ekki síst í tengslum við pólitískar víddir minnisins þar sem unnið er úr trámatískum atburðum fortíðarinnar. Gunnþórunn hefur starfað með innlendum og alþjóðlegum rannsóknarhópum á þessu sviði, t.d. með fjölþjóðlegum hópi að könnunum á bankahruninum 2008 í menningarlegu minni. Fyrr á þessu ári lauk rannsóknarverkefni hennar og fræðafólks við University College Dublin með útgáfu bókarinnar Iceland-Ireland: Memory, Literature, Culture on the Atlantic Periphery.

Eva Maria Fjellheim flytur erindi á ráðstefnunni „Explorations of Counter Memory“.