Skip to main content
29. desember 2021

Fjölgun kennara og annars fagfólks af erlendum uppruna

Fjölgun kennara og annars fagfólks af erlendum uppruna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í nóvember fól mennta- og menningarmálaráðuneytið Háskóla Íslands umsjón með átaksverkefni um fjölgun kennara og annars fagfólks í menntakerfinu af erlendum uppruna. Átakið er liður í menntastoð framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda og nær til áranna 2022-2024. Verkefnið er styrkt af stjórnvöldum með 20 milljóna króna framlagi og mun standa fram til ársins 2024.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, segir undirbúning að verkefninu hafinn og að jafnframt verði leitað eftir samstarfi við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði. Kolbrún segir mikinn auð felast í nemendum og starfsfólki sviðsins af erlendum uppruna. 

„Við höfum ótal dæmi um það að nemendur með annan tungumála- og menningarbakgrunn standa sig afar vel í kennaranámi sem og öðru námi. Það er ákaflega mikilvægt að fjölga kennurum og öðru fagfólki í menntakerfinu sem hefur fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.“

Við gildistöku nýrra laga um almenna hæfni kennara var sett á fót kennararáð sem meðal annars skipaði starfshóp til að beina sjónum sínum að hæfni kennara til að miðla á íslensku. Þar á sæti Kristín Jónsdóttir, dósent og forseti Deildar kennslu- og menntunarfræði. 

„Ég er ákaflega ánægð með að í þeim hópi náðist samstaða um að kennaranemar af erlendum uppruna gætu lært íslensku sem hluta af sínu kennaranámi. Það eru mikilvæg skilaboð til stórs hóps fólks sem vill helga krafta sína störfum við kennslu. Skilaboðin verði vonandi þau að nú sé fullgilt að vera kennaranemi án þess að hafa íslensku sem móðurmál. Við verðum að nýta mikilvæga reynslu allra sem vilja starfa við kennslu og sem fagfólk á sviði menntunar. Mín von stendur til þess að löggjafinn virði þetta sjónarmið og setji í reglugerð.“

Nýta auð fólks með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn

Síðustu misseri hafa ýmis verkefni verið þróuð á Menntavísindasviði til að styðja við nám nemenda af erlendum uppruna. Valnámskeiðið Samtal um fagið var sett á laggirnar fyrir leikskólakennaranema sem hafa annað móðurmál en íslensku. Það spratt úr jarðvegi samfélagsstyrks Háskóla Íslands sem Kristín Karlsdóttir, dósent í leikskólakennarafræði, fékk sumarið 2020. 

Átaksverkefni stjórnvalda hefst á því að þróuð verða einingabær námskeið sem ná til markhópsins. Oddný Sturludóttir, verkefnisstjóri á Menntavísindasviði, mun leiða þessa vinnu fyrir hönd sviðsins og lögð verður áhersla á að kynna námstilboðið vel fyrir sveitarfélögum og þeim stóra hópi sem starfar nú þegar í menntakerfinu, í leikskólum, grunnskólum, á vettvangi frístundastarfs og víðar. Kolbrún segir að stjórnvöld hafi einnig falið Menntavísindasviði að þróa óeiningabær námskeið undir hatti Menntafléttunnar sem ætlað er starfsfólki leik- og grunnskóla sem hefur fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. „Öll eru þessi skref mikilvæg til að kveikja neista og byggja upp færni og þekkingu þessa mikilvæga hóps í menntakerfinu okkar.“ 

„Við viljum efla hæfni kennara til að mæta fjölbreyttum nemendahópi til að miðla málinu og menningunni og tengjum það mikilvægum gildum í íslensku skólastarfi. Íslenskt samfélag er fjölmenningarsamfélag, það viljum við að nám á Menntavísindasviði endurspegli,“ segir Kristín Jónsdóttir, dósent og forseti Deildar kennslu- og menntunarfræði.

Horft til fleiri faghópa en kennara

Í umsögn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda kom fram rík áhersla á að ná til fleiri fagstétta en framtíðarkennara. Tillit var tekið til þeirra athugasemda og Kolbrún segist fagna því sérstaklega. 

„Í frístundastarfinu og í stuðningi við börn með sérþarfir er að finna mikinn auð í starfsfólki af erlendum uppruna. Því er sérstaklega ánægjulegt að skilgreindur lokaáfangi þessa átaksverkefnis er að þróa námstilboðið Íslensku í kennslu- og uppeldisstörfum fyrir verðandi kennara, nemendur í tómstunda- og félagsmálafræði, þroskaþjálfafræði og uppeldis- og menntunarfræði.“ 

Kristín tekur undir þetta og segir ekki síður mikilvægt að verið sé að þróa nýja námsbraut sem nefnist Menntun fyrir alla með kjörsviði sem höfðar beint til kennara og kennaranema sem helga vilja krafta sína kennslu í fjölmenningarsamfélagi: 

„Við viljum efla hæfni kennara til að mæta fjölbreyttum nemendahópi til að miðla málinu og menningunni og tengjum það mikilvægum gildum í íslensku skólastarfi. Íslenskt samfélag er fjölmenningarsamfélag, það viljum við að nám á Menntavísindasviði endurspegli.“

Kolbrún Þ. Pálsdóttir