Fjölbreytt og fróðlegt sviðsþing | Háskóli Íslands Skip to main content

Fjölbreytt og fróðlegt sviðsþing

26. apríl 2018

Árlegt þing Heilbrigðisvísindasviðs fór fram í Veröld – Húsi Vigdísar mánudaginn 16. apríl 2018. Dagskrá þingsins var mjög fjölbreytt, nýskipaður landslæknir, Alma Möller, flutti opnunarávarp, fjallað var um stöðuna á nýrri byggingu Heilbrigðisvísindasviðs og margt fleira.

Alma Möller landlæknir flutti ávarp undir yfirskriftinni „Betur vinnur vit en strit“. Þar fjallaði hún um helstu áskoranir í heilbrigðisþjónustu og hver væru brýnustu verkefni landlæknisembættisins. Alma lagði áherslu gott samstarf við Heilbrigðisvísindasvið. Hún ræddi nám við sviðið og mikilvægi þess að það væri í takt við þarfir samfélagsins hverju sinni. Alma telur áríðandi að efla kennslu við hermisetur og að skoða hvort að Landspítali og Háskólinn gætu aukið samstarf á því sviði. 

Inga Þórsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs, flutti fréttir af starfsemi sviðsins. Hún fjallaði um fjárlög til HÍ og Heilbrigðisvísindasviðs og deililíkanið. Hún sýndi einnig ýmsar árangurstölur af sviðinu, til dæmis þreyttar einingar, brautskráningar og rannsóknastig. Inga sagði frá breytingum á námi við Heilbrigðisvísindasvið, bæði breytingum sem hafa tekið gildi en einnig þeim sem eru í pípunum. 

Fulltrúar úr nefndum á Heilbrigðisvísindasviði tóku til máls og kynntu þeirra helstu áherslur og verkefni. Bryndís E. Birgisdóttir, prófessor og formaður doktorsnámsnefndar, sagði frá því að miðbiksmat er nú fastur liður í doktorsnámi við sviðið og nefndin hefur staðið fyrir reglulegum hádegisfyrirlestrum fyrir leiðbeinendur doktorsnema. Þórana E. Dietz, mannauðsstjóri og fulltrúi jafnréttisnefndar, sagði frá því að nefndin hefur unnið að því að stuðla að víðtækari fræðslu nemenda um málefni hinsegin fólks og aðkomu þeirra að heilbrigðiskerfinu. Jafnréttisnefndin hefur einnig beitt sér fyrir því að bæta kynjahlutfall í nefndum og samþættingu jafnréttissjónarmiða í kennslu. Þórdís K. Þorsteinsdóttir, lektor og formaður kennslumálanefndar, sagði frá því að nefndin vinnur að því að draga stundakennarana nær háskólanum og auka tengsl þeirra við sviðið. Einnig skipuleggur nefndin sameiginlegan nýnemadag fyrir sviðið nú í haust. Einar S. Björnsson, prófessor og formaður vísindanefndar, sagði frá því að rýnihópur, sem stofnaður var að beiðni Vísinda- og nýsköpunarsviðs, hefur lagt fram skýrslu um sameiginlegar þarfir fyrir innviði á sviðinu. Hugmyndin um Heilbrigðisvísindastofnun hefur verið endurvakin með þessu starfi. 

Sigurður Ýmir Sigurjónsson, formaður sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs og nemi í hjúkrunarfræði, kom sjónarmiðum nemenda á framfæri. Nemendum finnst skorta fræðslu um heilbrigðisþjónustu sem varðar hinsegin einstaklinga og hvernig megi efla þjónustu við þennan hóp. Nemendur eru einnig langþreyttir á húsnæðismálum sviðsins. Dreifing bygginga sviðsins dregur úr samskiptum og samvinnu nemenda úr mismunandi greinum og þeim þykir erfitt að koma sér á milli bæjarhluta til þess að sækja kennslu.

Ólafur Pétur Pálsson, prófessor og stjórnandi þarfagreiningar fyrir nýtt hús HVS, fór yfir stöðuna á þeirri vinnu. Þarfagreiningin er nú á lokastigum. Rætt hefur verið við forsvarsmenn ýmissa hópa innan sviðsins og Landspítala varðandi þarfir í nýja húsinu. Einnig hefur verið kallað eftir athugasemdum frá starfsfólki í opinni gátt og farið í heimsóknir í nýjar heilbrigðisvísindabyggingar erlendis. Nú er unnið að greiningu á öllum gögnum sem safnað hefur verið og útreikningar á rýmisþörf eru í vinnslu. Áætlað er að byggingin farið í útboð vorið 2019 og að framkvæmdum ljúki á árinu 2024. 

Guðbjörg L. Rafnsdóttir, prófessor og aðstoðarrektor vísinda við HÍ, fjallaði um aðgerðir háskólaráðs og rektors í kjölfar #MeToo hreyfingarinnar. Starfshópur sem skipaður var af rektor hefur lagt til 16 fjölþættar aðgerðir til þess að bregðast við og vinna gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi innan skólans. Guðbjörg fór yfir tillögurnar og markmið þeirra. 

Erla G. Ingimundardóttir, lögfræðingur á skrifstofu rektors, kynnti nýju evrópsku persónuverndarlöggjöfina sem kemur til innleiðingar í maí. Hún greindi frá stöðunni á innleiðingunni í HÍ og tók dæmi um nýjar skyldur sem leggjast á skólann í kjölfarið. Erla fór einnig yfir það hvort löggjöfin hafi í för með sér einhverjar breytingar varðandi vinnslu persónuupplýsinga í vísindarannsóknum á heilbrigðisvísindasviði. 

Fundarstjóri þingsins var Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor og forseti Lyfjafræðideildar. 

Skoða allar glærukynningar af þinginu (í Uglu).

Skoða myndir.

Alma Möller, nýskipaður landslæknir, flutti opnunarávarp á þingi Heilbrigðisvísindasviðs þann 16. apríl 2018.

Netspjall