Fjölbreytni í nýsköpun í heilbrigðisvísindum | Háskóli Íslands Skip to main content

Fjölbreytni í nýsköpun í heilbrigðisvísindum

22. nóvember 2017

Nýsköpunarráðstefna Heilbrigðisvísindasviðs fór fram í Veröld-húsi Vigdísar föstudaginn 17. nóvember sl. Tæplega áttatíu þátttakendur hlýddu á erindi í þremur málstofum og sóttu fjölbreytta veggspjalda- og vörusýningu.

Ráðstefnan hófst með stuttu ávarpi frá Ingu Þórsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs. Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Mint Solutions, flutti gestafyrirlestur í upphafi dagskrár. Mint Solutions er íslenskt-hollenskt hátæknifyrirtæki sem vinnur að þróun lyfjaöryggiskerfisins MedEye.

Vísindafólk úr ýmsum áttum heilbrigðisvísinda kynnti hugmyndir og verkefni á ráðstefnunni. Má þar nefna vísindafólk úr flestum deildum og námsbrautum Heilbrigðisvísindasviðs en jafnframt frá Félagsvísindasviði HÍ, Háskólanum í Reykjavík, Landspítala, Matís, Blóðbankanum, Hjartavernd og öðrum fyrirtækjum og stofnunum.

Eins og fyrr segir fór ráðstefnan fram í þremur málstofum en þær voru: Tækni og líðan einstaklingsins; Grunnvísindi og tækni; Nýjar aðferðir - hjarta- og æðasjúkdómar. Þá fór einnig fram veggspjalda- og vörusýning. Þar fóru meðal annars fram kynningar nemenda á nýsköpunarverkefnum sem unnin voru í námskeiðinu Þverfræðileg samvinna í heilbrigðisvísindum, Líftæknifélag Íslands kynnti starfsemi sína og fulltrúar frá Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala veittu upplýsingar um hlutverk nefndarinnar.

Skoða dagskrá ráðstefnunnar.

Skoða myndir frá ráðstefnunni

Netspjall