Fjárlaganefnd á háskólatónleikum | Háskóli Íslands Skip to main content

Fjárlaganefnd á háskólatónleikum

7. nóvember 2017
""

Sönghópurinn Fjárlaganefnd flytur verk eftir Henryk Górecki, William Byrd og Jaakko Mäntyjärvi (frumflutningur hérlendis) á háskólatónleikum miðvikudaginn 8. nóvember næstkomandi. Tónleikarnir hefjast kl. 12.30 og þeir verða í Kapellunni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Sönghópinn Fjárlaganefnd skipa átta söngvarar á aldrinum 21 árs til 30 ára sem öll nema söng en hópurinn starfar án stjórnanda. Hópurinn deilir ábyrgð og ákvarðanatöku og leggur mikið upp úr nánu sambandi allra félaga, sameiginlegri og tilfinninganæmri túlkun auk fjölbreytts verkefnavals.   

Fjárlaganefnd var stofnuð í lok árs 2015 og hefur síðan sungið víða, m.a. á Sumartónleikum í Skálholti, Óperudögum í Kópavogi og í Hörpu auk þess að halda sjálfstæða tónleika. 

Fjárlaganefnd, sem syngur á latínu, skipa þau Sólveig Sigurðardóttir sópran, Ásta Marý Stefánsdóttir sópran, Valgerður Helgadóttir alt, Freydís Þrastardóttir alt, Gunnar Guðni Harðarson tenór, Gunnar Thor Örnólfsson tenór, Böðvar Ingi Geirfinnsson bassi og Ragnar Pétur Jóhannsson bassi.

Verkið Totus tuus eftir pólska tónskáldið Henryk Górecki er samið árið 1987 og tileinkað Jóhannesi Páli páfa öðrum. Upphafsorð verksins eru einkunnarorð hans en textann gerði Maria Bogusławska. Verkið er mínímalískt og einfalt í formi en nær samt, eða kannski fyrir vikið, að sýna mikinn trúarhita og ástríðu.

Verkin Ave verum corpus og Emendemus in melius eru eftir enska tónskáldið William Byrd. Þau eru samin fyrir messur katólskra aðalsmanna sem haldnar voru á laun. Því eru verkin samtímis íburðarmikil og lágstemmd.

Verk finnska tónskáldsins Jaakko Mäntyjärvi, Canticum calamitatis maritimae, var samið vegna sjóslyss sem varð árið 1994; þá sökk ferjan Estonia í Eystrasalti. Það er mannskæðasta sjóslys sem orðið hefur í Evrópu, a.m.k. á friðartímum. Texti verksins er að hluta til tekinn beint úr fréttum af slysinu sem voru fluttar á Nuntii Latini, finnskri útvarpsstöð sem sendir út á latínu. Verkið hefur ekki verið flutt áður á hér á landi.

Sungið er á latínu. Það á jafnt við um alla textana, hvort sem þeir eru trúarlegs eðlis eða útvarpsfréttir.

Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Sönghópurinn Fjárlaganefnd

Netspjall