Skip to main content
3. janúar 2019

Ferðaþjónusta mikil áskorun fyrir almannavarnir

""

Vísindatímaritið Palgrave Communications birti á dögunum grein eftir Deanne Bird, rannsóknarsérfræðing í landfræði við Háskóla Íslands, og Guðrúnu Gísladóttur, prófessor í landfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, þar sem fjallað er um rannsókn sem varpar ljósi á það hvernig íbúar í nágrenni Eyjafjallajökuls brugðust við fyrirmælum um rýmingu vegna eldgosanna árið 2010. Jafnframt eru lagðar fram tillögur um hvernig standa skuli að framtíðarskipulagi viðbragðsáætlana með tilliti til þeirra samfélagsbreytinga sem hafa átt sér stað á landinu, m.a. samfara auknum fjölda ferðamanna.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa mikilvægar upplýsingar um hvernig og hvers vegna fólk bregst við þegar það stendur frammi fyrir eldgosahættu. Í greininni kemur fram að aukin ferðaþjónusta og samfélagsbreytingar vegna starfa í ferðaþjónustu á Suðurlandi séu mikil áskorun fyrir almannavarnir og samfélög á svæðinu. Lögregla og almannavarnir þurfi að vera meðvituð um að ferðaþjónustuaðilar taki hugsanlega þátt í starfsemi sem muni auka á varnarleysi og viðkvæmni þeirra sjálfra og ferðamanna vegna náttúruvár.

Kveikjan að rannsókninni liggur í eldri rannsóknum sem unnar voru á árunum 2005 til 2009 á náttúruvá í Kötlu. „Katla er ein virkasta og hættulegasta eldstöð landsins og á árunum 2005 til 2006 voru mótaðar viðbragðsáætlanir fyrir íbúa á áhrifasvæði hennar,“ segir Guðrún.

Að sögn Guðrúnar höfðu jarðvísindalegar mælingar sýnt óróleika í Kötlu og byggðu viðbragðsáætlanirnar á rannsóknum vísindamanna og hermunum hugsanlegra jökulhlaupa, en án þess að fyrir lægju rannsóknir á skynjun fólks og þekkingu á náttúruvá og hvernig það myndi bregðast við aðsteðjandi hættu.

Guðrún fékk Deanne Bird, sem var þá að hefja doktorsnám í landfræði, til liðs við sig við rannsóknarvinnuna. Viðfangsefni hennar var að rannsaka hinn félagslega þátt Kötluvár, með það að markmiði að niðurstöðurnar nýttust til að draga úr hættu sem fylgir Kötlugosi.

Rannsókninni lauk áður en eldgos varð í Eyjafjallajökli og náði til íbúa á skilgreindu hættusvæði Kötlu, sem og til stjórnenda neyðar- og björgunarmála, ferðamanna og ferðaþjónustuaðila. „Þá framkvæmdum við þáttökuathugun í almannavarnaræfingunni Bergrisanum árið 2006 þar sem viðbragðs- og rýmingaráætlanir voru prófaðar með fullri þátttöku allra íbúa og þeirra sem koma að skipulagi áætlana ef til goss kæmi,“ segir Guðrún. Niðurstöður bentu m.a. til þess að íbúar sem flestir voru bændur myndu bregðast jákvætt við tilskipunum um rýmingu svæðisins en þó töldu íbúar að margir samverkandi þættir hefðu áhrif á það hvort þeir myndu sjá sér fært að fylgja ráðleggingum um rýmingu.

Fólk treystir og ber virðingu fyrir viðbragðsaðilum
„Þegar gaus í Eyjafjallajökli árið 2010 voru send út fyrirmæli um rýmingu vegna hugsanlegra jökul- og aurflóða. Í kjölfarið gafst okkur einstakt tækifæri til að rannsaka hvernig íbúar á hættusvæði í Austur- og Vestur-Eyjafjöllum brugðust við þeim tilmælum,“ segir Guðrún.

„Síðsumars 2010 tókum við djúpviðtöl og lögðum spurningakönnun fyrir íbúa sem á þessum tíma voru að uppistöðu bændur en einnig við opinbera aðila og aðra viðbragðsaðila sem komu að málum. Það var ljóst að viðhorf íbúa var almennt mjög jákvætt til opinberra aðila sem höfðu verið með íbúafundi á svæðinu, skömmu áður en eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst árið 2010, þar sem rýmingaráætlanir vegna hugsanlegs Kötlugoss voru rifjaðar upp enda jafnan búist við að Katla gæti farið af stað,“ segir Guðrún og bætir við: „Þá hafði það mikið að segja að fólk treysti og bar virðingu fyrir viðbragðsaðilum.“

Árið 2016 voru einnig tekin viðtöl við lögreglustjórann á Suðurlandi sem er yfirmaður almannavarna á svæðinu, lögreglustjóra í héraði, sveitarstjóra Rangárþings eystra og tvo íbúa sem hvoru tveggja stunda landbúnað og ferðaþjónustu á svæðinu.

Að sögn Guðrúnar gáfu viðtölin tækifæri til að ræða við opinbera aðila um hugsanlegar breytingar á viðbragðsáætlunum vegna eldgosavár í ljósi reynslunnar frá gosunum 2010 og þær áskoranir sem fylgja þeim samfélagslegu breytingum og þeirri miklu fjölgun ferðamanna sem hefur átt sér stað á Suðurlandi frá gosi.

Um helmingur tók þátt í rýmingu
Þegar eldgos hófst í Eyjafjallajökli fengu íbúar sjálfvirka tilkynningu í síma (gsm eða heimasíma) um rýmingu en einnig fór hópur fólks á milli húsa/bæja til að tryggja að íbúar vissu af eldgosi. Þrátt fyrir þetta og jákvætt viðhorf fólks til viðbragðsaðila ákvað þó einungis helmingur viðmælenda að rýma svæðið.

Ástæður sem íbúar gáfu upp voru gjarnan þær að þeir þurftu að sinna öðrum, sem áttu erfitt með að fara af bæ, eða töldu sig ekki geta farið frá skepnum, en flestir íbúar á svæðinu voru bændur.

Ein rýmingaraðferð ekki nóg
Guðrún og Deanne telja að sú nálgun að hafa eina tiltekna rýmingaraðferð sem á að henta öllum á sama svæði óháð því hve ólíkur hópurinn er, eins og gert var 2010, sé ólíkleg til að tryggja fyrirbyggjandi viðbrögð almennings til framtíðar litið, ekki síst vegna þess að íbúasamsetning á Suðurlandi hefur breyst afar mikið frá lokum gossins í Eyjafjallajökli.

Afar mikilvægt er að sögn Guðrúnar að sveitastjórnir vinni stöðugt með íbúum á þann hátt að þeir verði beinir þátttakendur í mótun neyðaráætlana og verklagsreglna. Með slíkum vinnubrögðum eru þær líklegri til að gera sér betri grein fyrir þeim breytingum sem eiga sér stað innan samfélagsins og geta í kjölfarið aðlagað viðbragðsáætlanir svo þær henti íbúum betur.

Guðrún segir að nauðsynlegt sé að tryggja viðhald björgunarsveita og eftirfarakerfisins þar sem líklegt er að hlutverk þeirra verði enn mikilvægara í framtíðinni. Ná þarf til nýrra íbúa sem hvorki eiga skyldmenni né vini á svæðinu eða búa við gott samfélagsnet.

Samfélagsbreytingar stór þáttur
„Þegar samfélög breytast og verða flóknari, breytist skilningur, þekking, viðhorf og starfsemi íbúa. Með fjölbreyttari samfélögum munu því áskoranir sem tengjast fyrirmælum um rýmingar til framtíðar litið aukast. Sum samfélög gætu jafnvel orðið enn viðkvæmari fyrir náttúruvá,“ segir Guðrún.

„Hins vega má segja að sú staða sem er nú á Suðurlandi með breyttu samfélagi bjóði upp á að þróaðar verði nýjar og áhugaverðar aðferðir við mótun rýmingaráætlana sem tryggja að gamlir og nýir íbúar verði vel undirbúnir og bregðist rétt við ef til eldgoss kemur.“

Varasamt að hunsa tilmæli
Með sívaxandi fjölda ferðamanna á svæðinu er ljóst að lögregla og almannavarnir þurfa að horfast í augu við það að ekki sé víst að fyrirmælum um rýmingu verði hlýtt, sérstaklega meðal ferðaþjónustuaðila, og starfsfólks gististaða sem sinna gestum sínum, segir Guðrún. „Þetta á einkum við þegar ferðamenn eru í skoðunarferðum og ekki hægt að ná í þá, jafnvel um miðjar nætur, t.d. í norðurljósaferðum, allt eins og um miðjan dag.“

Forvitni getur verið varasöm
„Þar sem fleira og fleira fólk á Suðurlandi hefur atvinnu af ferðaþjónustu þurfa lögregla og almannavarnir að vera meðvituð um að ferðaþjónustuaðilar taki hugsanlega þátt í stafsemi sem mun auka á varnarleysi og viðkvæmni þeirra og ferðamanna vegna náttúruvár. Þetta var augljóst í gosinu á Fimmvörðuhálsi þegar margir illa útbúnir ferðahópar og ferðamenn á eigin vegum fóru að gosstöðvum við mjög erfiðar og jafnvel hættulegar aðstæður.

„Það er alveg ljóst að margir ferðamenn vilja sjá eldgos eins og við þekkjum hér á landi,“ segir Guðrún og minnist einnig á eldgosið í Kilauea á Hawaii árið 2018 þar sem ferðamenn reyndu að sannfæra leiðsögumenn sína um að komast sem næst gosstöðvunum. „Þessi staða, þ.e.a.s. aukin ferðaþjónusta og samfélagsbreytingar vegna starfa í ferðaþjónustu á Suðurlandi, eru mikil áskorun fyrir almannavarnir og samfélög á Suðurlandi.“

„Við höfum sinnt nokkuð rannsóknum á tengslum ferðamanna og náttúruvár en það er ljóst að frekari rannsókna er þörf á þessu sviði svo hægt sé að móta skilvirkar áætlanir til að tryggja megi öryggi ferðamanna og heimamanna ef til náttúruhamfara kemur,“ segir Guðrún að lokum.

Rannsóknin er unnin innan ramma NORDRESS-verkefnisins sem er víðtækt og þverfræðilegt með aðkomu fjölda vísindamanna og stofnana á Norðurlöndum. Í því er áhersla lögð á náttúruvá og viðnámsþrótt eða seiglu samfélaga, svo þau geti sem best búið sig undir og rétt sig við eftir áföll.
 

Eldgosið í Eyjafjallajökli
Guðrún Gísladóttir og Deanne Bird