Skip to main content
5. mars 2019

Ferðalag um Suður-Ameríku á Háskólatónleikum

""

Farið verður með áheyrendur í ferðalag um Suður-Ameríku og þeim boðið að hlýða á sönglög frá Argentínu, Síle, Kúbu og Brasilíu á næstu Háskólatónleikum sem fara fram í Kapellunni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands miðvikudaginn 6. mars kl. 12.30. Það er Dúó Atlantica sem flytur en tvíeykið skipa þau Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir messósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari. Guðrún syngur á spænsku, portúgölsku og á íslensku í ljóðaþýðingum eftir Þórarin Eldjárn og Þorstein Gylfason. 

Eins og alltaf er enginn aðgangseyrir og öll eru velkomin.

Mikil nánd við hlustendur
Dúó Atlantica skipa mezzósópransöngkonan Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og spænski gítarleikarinn og tónskáldið Francisco Javier Jáuregui. Þau eru þekkt fyrir mikla nánd við hlustendur, innlifun, frumlegt efnisval, heillandi framkomu, tilfinninganæma túlkun og áhugaverðar kynningar sem færa hlustendur inn í heim sérhvers lags. 

Guðrún og Javier komu fyrst fram saman í Guildhall School of Music and Drama í London 2002 en þar stunduðu þau bæði nám í tónlist. Síðan þá hafa þau komið reglulega fram í fjölmörgum tónleikasölum og á tónlistarhátíðum í Evrópu, Bandaríkjunum og Afríku. 

Þau hafa spilað saman á þremur geisladiskum: Mitt er þitt – íslensk og spænsk sönglög (12 tónar), English and Scottish Romantic Songs for Voice and Guitar (EMEC Discos) og Secretos Quiero Descubrir (Abu Records). 

Upptökur þeirra eru líka á diskunum Inspired by Harpa, Icelandic Folksongs and Other Favorites, Kom skapari (12 tónar) og Awake (Orpheus Classical).

Nánar um Dúó Atlantica

Gítarleikur á suðrænum nótum í Kapellunni
Francisco Javier Jáuregui lauk meistaranámi frá Guildhall School of Music and Drama í London. Gítarkennarar hans þar voru Robert Brightmore og David Miller en hann lærði einnig spuna hjá David Dolan og á tíorbu hjá David Miller. 

Javier hefur komið fram á tónleikum bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar á Spáni, Ítalíu, Möltu, Íslandi, í Englandi, Skotlandi, Frakklandi, Marokkó, Bandaríkjunum og Suðaustur-Asíu, í tónleikasölum eins og St Martin in the Fields, konungshöllinni í El Pardo á Spáni, St. James’ Palace og The Linbury Studio Theatre Covent Garden í London og Auditorio Nacional í Madríd. 

Hann hefur flutt gítarkonserta eftir Vivaldi og Rodrigo (Concierto de Aranjuez) með sinfóníuhljómsveitunum Schola Camerata og Santa Cecilia á Spáni og leikið einleik með Sonor Ensemble. Þá hljómsveit skipa hljóðfæraleikarar úr þjóðarsinfóníuhljómsveit Spánar. Javier kemur regluega fram með Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur í Dúó Atlantica, með Elenu Jáuregui fiðluleikara í Dúó Roncesvalles og með Guðrúnu og Elenu í Tríó Aglaia. 

Hann hefur tekið þátt í verkefnum sem varða tónlistarmenntun á vegum Wigmore Hall í London frá 2001 og leikið inn á fjóra geisladiska. Hann kennir klassískan gítarleik við St. Louis University í Madríd þar sem hann er yfirmaður tónlistardeildarinnar. Javier er meðstjórnandi sönghátíðarinnar í Hafnarborg.  

www.javierjauregui.com

Guðrún Jóhanna hefur frumflutt fjölmörg tónverk
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir hefur komið fram sem einsöngvari á tónleikum vítt og breitt um Evrópu, í Bandaríkjunum, Afríku og Suður-Ameríku, í tónleikasölum eins Henry le Boeuf Hall í Bozar í Brussel, Auditorio Nacional de Música og Teatro Real í Madrid, Glinka, sal fílharmóníunnar í St. Pétursborg, Coliseo í Buenos Aires og Royal Festival Hall í London. Hún hefur m.a. sungið með útvarps- og sjónvarpshljómsveit Spánar, Sinfóníuhljómsveit Íslands, sinfóníuhljómsveitum Madrídar, Barselóna og Katalóníu, Albacete og La Mancha, Bachsveitinni í Skálholti, Kammersveitinni Ísafold, Kammersveit Reykjavíkur, Caput, Nordic Affect, Sonor Ensemble, St Petersburg State Symphony Orchestra og Philharmonia Orchestra í London.

Guðrún hefur frumflutt fjölmörg tónverk eftir íslensk og erlend tónskáld en sum hafa verið samin sérstaklega fyrir hana. Hún hefur sungið í óperum á Spáni, Englandi, Írlandi og Íslandi, hlutverk eins og Öskubusku, Dorabellu, Rosinu, Romeo, Prins Orlowsky, Carmen, Sesto, Tónskáldið, Ingibjörgu og titilhlutverkið í Stígvélaða kettinum eftir Montsalvatge í Teatro Real í Madríd. 

Guðrún nam söng hjá Rut Magnússon í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá Lauru Sarti í Guildhall School of Music and Drama í London en þaðan lauk hún meistaranámi í söng og líka námi við óperudeild skólans. Hún hefur einnig sótt einkatíma í söng hjá Aliciu Nafé í Madríd. Hún hefur hlotið verðlaun í alþjóðlegum söngkeppnum, t.d. Kathleen Ferrier ljóðasöngsverðlaunin, ljóðasöngsverðlaunin í alþjóðlegu söngkeppninni í Zamora, þriðju verðlaun í Concorso di Musica Sacra í Róm og Joaquín Rodrigo verðlaunin í Madríd. 

Hún hefur í tvígang hlotið starfslaun listamanna, eitt ár í hvort skipti. Guðrún hefur sungið inn á fjölda geisladiska. Tónlistin er af ýmsum toga og er jafnt íslensk sem erlend. Guðrún er listrænn stjórnandi sönghátíðar í Hafnarborg. 

www.gudrunolafsdottir.com

 
 

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir messósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari