Skip to main content
24. maí 2019

Fengu viðurkenningu fyrir lokaverkefni um Parkinsonveiki

Tveir nemendur, sem eru að ljúka BS-námi frá Hjúkrunarfræðideild, hlutu verðlaun fyrir lokaverkefni sitt á séstökum lokaverkefnisdegi deildarinnar í Eirbertgi 15. maí sl. 

Á deginum kynntu 57 nemendur lokaverkefni sín, sem voru 30 talsins, í sex málstofum. Verkefnin voru afar fjölbreytt að efni og snertu m.a. rafrettunotkun unglinga, líkamlega virkni unglingsstúlkna, lífsgæði eftir hjartastopp, forgangsröðunarkerfi á bráðamóttöku og lífsgæði liðskiptasjúklinga. Þá flutti Herdís Sveinsdóttir, prófessor og deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar, ávarp á deginum og fulltrúar afmælisárganga hjúkrunarfræðinga, þær Áslaug Elsa Björnsdóttir, Laura Scheving Thorsteinsson og Anne Mette Pedersen, einnig. Þá voru þær Ágústa og Sóla, sem starfað hafa í Hámu í Eirbergi um árabil, kvaddar með blómum og þakkað fyrir gott samstarf í gegnum árin. Ásta María Ásgrímsdóttir lauk svo dagskránni með ávarpi fyrir hönd fjórða árs nema. 

Líkt og áður var veitt sérstök viðurkenning fyrir áhugavert og vel unnið lokaverkefni. Að þessu sinni fengu þær Ólöf Sólrún Vilhjálmsdóttir og Sara Jane Friðriksdóttir viðurkenningu fyrir verkefnið „Þetta er meira en bara sjúkdómur“ - Lífið með Parkinsonsveiki: Reynsla sjúklinga og aðstandenda. Leiðbeinendur voru Marianne E. Klinke, dósent við Hjúkrunarfræðideild, og Jónína H. Hafliðadóttir á Landspítalanum.

Verðlaunahafarnir Ólöf Sólrún Vilhjálmsdóttir og Sara Jane Friðriksdóttir ásamt öðrum leiðbeinanda sínum, Marianne E. Klinke, dósent við Hjúkrunarfræðideild.