Skip to main content
9. október 2018

Fengu Menningarverðlaun DV fyrir fræðistörf

Tveir fræðimenn af Hugvísindasviði hlutu Menningarverðlaun DV við hátíðlega athöfn um liðna helgi. Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði, hlaut verðlaun fyrir bókina Leitin að klaustrunum og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, hlaut heiðursverðlaun fyrir framlag til íslenskra málvísinda og tungu.

Um Leitina að klaustrunum segir í rökstuðningi valnefndar að bókin sé glæsilegt verk þar sem gerð sé ítarleg grein fyrir rannsóknum höfundar og aðstoðarmanna hennar á sviði fornleifafræði. „Auk lýsinga á vettvangi er vísað til fjölda tiltækra heimilda. Bókin er skrifuð á skýru og aðgengilegu máli og bregður upp lifandi myndum, bæði af sögu klausturhalds á Íslandi og af starfi fornleifafræðinga. Mjög er vandað til útgáfunnar sem prýdd er fjölda mynda, teikninga og korta.“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Eiríki Rögnvaldssyni heiðursverðlaun fyrir framlag til íslenskra málvísinda og tungu. Í hennar máli kom fram að fáir ef nokkrir hefðu eflt íslenska málvitund og hjálpað til við að halda tungumálinu lifandi og Eiríkur Rögnvaldsson. Eiríkur kenndi málvísindi og íslensku við Háskóla Íslands í 37 ár, 25 af þeim sem prófessor. Í rökstuðningi valnefndar segir m.a.: „Auk kennslu hefur hann skrifað fræðigreinar og bækur um málfræði, hljóðfræði og annað sem tengist íslenskri tungu. Eiríkur er margverðlaunaður og hlaut meðal annars riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2017. Eiríkur hefur ávallt verið meðvitaður um að tungan verði að aðlagast til að lifa af. Hefur hann því til dæmis beitt sér fyrir eflingu tungumálsins í hinum stafræna heimi og tekið inn nýtt persónufornafn inn í beygingarfræðina til að ná utan um fólk sem skilgreinir sig sem kynsegin. Framlag Eiríks til íslenskrar menningar er því ómetanlegt.“

Menningarverðlaun DV hafa verið veitt árlega frá árinu 1979 fyrir framúrskarandi árangur á menningarsviðinu. Í þetta skiptið voru verðlaunin veitt í sjö flokkum; leiklist, tónlist, kvikmyndum, myndlist, bókmenntum, fræðiritum og stafrænni miðlun auk sérstakra heiðursverðlauna.

Sjá einnig frétt DV.

Frá afhendingu Menningarverðlauna DV 2018. Mynd: DV.