Félagsmálaráðuneytið og HÍ semja um eflingu kennslu og rannsókna tengdri þjónustu við börn | Háskóli Íslands Skip to main content
22. september 2021

Félagsmálaráðuneytið og HÍ semja um eflingu kennslu og rannsókna tengdri þjónustu við börn

Félagsmálaráðuneytið og HÍ semja um eflingu kennslu og rannsókna tengdri þjónustu við börn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu í dag samstarfssamning um að Háskólinn setji á laggirnar tvær tímabundnar lektorsstöður við Félagsráðgjafardeild skólans til þriggja ára til að efla kennslu og rannsóknir vegna nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. 

Önnur staðan verður á sviði barnaverndar með áherslu á rétt barna til þjónustu og þátttöku og þverfaglegs samstarfs með áherslu á teymisvinnu og málastjórn. Hin, sem verður hálft starf, verður staða á sviði kostnaðar- og nytjagreininga með áherslu á mælingar á hagrænum ávinningi breytinganna. Stöðurnar eru settar á laggirnar til að sem best takist að innleiða ný vinnubrögð sem byggjast á samþættingu þjónustu við börn, en mikilvægt er að leggja áherslu á menntun fagstétta auk endur- og símenntunar við beitingu aðferða málastjórnunar og þverfaglegrar samvinnu.

Lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt á Alþingi í vor. Stefnan í lögunum er að láta mismunandi hluta kerfisins tala betur saman og loka gráum svæðum. Þannig er markmiðið að barnið verði hjartað í kerfinu. Í lögunum er lögð rík áhersla á að börn og foreldrar hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana ef á þarf að halda. Með breytingunum er leitast við að tryggja að foreldrar og barn fái upplýsingar um þjónustu í þágu barnsins og þjónustuveitendur, foreldrar og börn, eftir atvikum, móti í sameiningu markmið, úrræði og mat á árangri.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna munu bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Við höfum smíðað undirstöður undir kerfi sem tryggir að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa og verði ekki send á eigin ábyrgð milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Samhliða gildistöku nýrra laga er mikilvægt að leggja áherslu á menntun fagfólks og hagrænan ávinning af þessum breytingum. Ég er því virkilega ánægður með þetta samstarf við háskólann, sem mun hjálpa okkur að efla þjónustu í þágu barna.“

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands: „Háskólinn fagnar því að geta stutt við innleiðingu hinnar nýju stefnu í málefnum barna með því að efla kennslu og rannsóknir sem styðja við hana. Það að efla þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra er verkefni sem við þurfum öll að standa saman að. Stöðurnar sem hér eru stofnsettar eru vistaðar við Félagsráðgjafardeild en meðal hlutverka hinna nýju lektora er að leiða rannsóknarnet fræðafólks sem vinnur að rannsóknum á högum barna þvert á greinar og háskóla. Við hlökkum til samstarfs við sem flesta um þetta mikilvæga verkefni. Allt þetta fellur mjög vel að nýrri stefnu Háskóla Íslands 2021-2026, HÍ26.“
 

Við undirritun samningsins í Háskóla Íslands í dag. Sitjandi eru Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og standandi frá vinstri eru Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu, Hervör Alma Árnadóttir, dósent og varadeildarforseti Félagsráðgjafardeildar, og Guðný Björk Eydal, prófessor og forseti Félagsráðgjafardeildar.