Skip to main content
2. maí 2022

Fékk afar eftirsóttan styrk til doktorsnáms við Cambridge

Fékk afar eftirsóttan styrk til doktorsnáms við Cambridge - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Fornfræði og klassísk mál eru merkileg að því leyti að þau eru nokkurs konar gluggi inn í annan heim, sem er bæði framandi og mjög kunnuglegur á sama tíma. Það má rekja stóran hluta nútímamenningar í vestrænum heimi til Rómverja og Grikkja, svo sem bókmenntir, stjórnmál, heimspeki, sögu, list og arkitektúr og málvísindi. Þar að auki eru þetta mjög áhugaverð fög í sjálfu sér,“ segir Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands í fyrrasumar. Hún fékk á dögunum mjög eftirsóttan styrk frá sjóði Bill og Melindu Gates til þess að hefja doktorsnám við hinn virta Cambridge-háskóla.

Sólveig lauk tvöföldu BA-prófi í latínu og grísku frá HÍ og hefur í vetur stundað meistaranám í fornfræði í Cambridge. Styrkurinn frá Gates Cambridge sjóðnum, sem grundvallast á veglegri gjöf frá Bill og Melinda Gates Foundation til Cambridge, gerir henni kleift að halda áfram framhaldsnámi sínu við skólann. Styrkurinn er með þeim virtustu sem alþjóðlegum nemendum stendur til boða fyrir framhaldsnám við skólann. Markmiðið með Gates Cambridge sjóðnum er bæði að styrkja efnilega nemendur til náms og að fá þá til þess að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt með ýmsum hætti.

Valin úr hópi yfir 5.000 umsækjenda

Á hverju ári sækja á bilinu fimm til sex þúsund nemendur um slíkan styrk. Að þessu sinni fengu tæplega 80 stúdentar frá 30 löndum styrk, þar á meðal Sólveig. „Það er mjög gott að njóta þeirrar viðurkenningar sem felst í að hafa hlotið Gates-styrk en helsta þýðingin fyrir mig persónulega er að hann geri mér kleift að fara í doktorsnám hér yfir höfuð þar sem nám í Bretlandi er mjög dýrt. Styrkurinn sem ég hlaut er um 30 milljón króna virði þar sem hann dekkar bæði skólagjöld og allt uppihald til allt að fjögurra ára,“ segir Sólveig um þýðingu styrksins. Hún bætir enn fremur við að ýmislegt sé gert til þess að mynda nokkurs konar samfélag meðal styrkþega sem heldur svo sambandi eftir að námi lýkur. 

Áhugi Sólveigar á klassísku málunum kviknaði þegar hún stundaði nám við máladeild Menntaskólans í Reykjavík. „Mér fannst latína strax afskaplega spennandi tungumál. Það er margt töfrandi við latínu, t.d. föll sem eru til þar en ekki í íslensku, eins og ablativus. Margir hafa gaman af því hvað latína er rökrétt og regluleg og það er stundum eins og lítil þraut að púsla því saman hvað setningar þýða og hvaða hlutverki hvert orð gegnir. Á sama tíma kemst maður að mjög miklu um íslenska málfræði með því að læra latínu en það kveikti áhuga margra bekkjarsystkina minna á námi í íslensku og málvísindum. Smám saman hef ég svo líka komist að því að latína er að mörgu leyti flóknari og óreglulegri en hún virðist við fyrstu sýn,“ útskýrir hún.

Í MR lærði Sólveig einnig forngrísku sem hún segir heillandi tungumál. „Það er bæði skemmtilegt að læra nýtt stafróf og svo var gríska ólík öllum tungumálum sem ég hafði lært áður,“ segir hún.

Mælir með skiptinámi frá HÍ

Að loknum menntaskóla lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem Sólveig innritaði sig í latínu og grísku en vegna frábærs árangurs á stúdentsprófi hlaut Sólveig styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði skólans. „Nám í grísku og latínu veitir manni aðgang að bókmenntunum á þessum málum. Ég hef lesið mikið af skemmtilegum verkum í náminu – allt frá ljóðum eftir Catúllus og Óvidíus yfir í brot úr Ilíons- og Ódysseifskviðu og heimspekiverk eftir Platón,“ segir Sólveig sem lauk sem fyrr segir tvöföldu BA-prófi.

Á meðan á dvöl hennar í HÍ stóð fór Sólveig m.a. í skiptinám við Glasgow-háskóla sem hún segir hafa verið frábæra reynslu og góðan undirbúning fyrir það nám sem hún stundar nú. „Ég myndi mæla með því við alla að nýta sér tækifærin sem eru í boði í HÍ til að fara í skiptinám. Það var góður undirbúningur fyrir meistaranámið, sem ég er núna í við Cambridge, að hafa kynnst bresku háskólakerfi og séð hvaða straumar og stefnur væru í gangi í fornfræði á alþjóðlegum vettvangi. Svo er Glasgow yndisleg borg þar sem var gott að búa. Eftir skiptinám býr maður líka að því að eiga ólíka vini alls staðar að og ég er enn í sambandi við marga af þeim sem ég kynntist í skiptináminu.“

„Cambridge er nálægt London sem er skemmtilegt en bærinn sjálfur er rólegur. Hér er mikið af gömlum byggingum og grænum svæðum þar sem maður getur til dæmis oft séð kýr á beit. Ég og kærastinn minn, Oddur Snorrason sem er líka hérna í meistaranámi, erum bæði meðlimir í Jesus College en það er einn af 31 slíkum í Cambridge. Þar sem bæði skólinn, deildirnar og college-in standa fyrir ýmsum viðburðum er margt í boði og alltaf eitthvað skemmtilegt á döfinni,“ bætir hún við. MYND/Sólveig Hrönn

Stórt fornfræðisamfélag og skemmtilegur bær

Háskólinn í Cambridge er í hópi elstu háskóla heims og hefur lengi verið í hópi þeirra fremstu sömuleiðis. Aðspurð segist Sólveig hafa ákveðið að sækja um framhaldsnám við Cambridge vegna þess hve framarlega skólinn er á sviði fornfræði. „Fornfræðideildin hérna er afar stór – það eru um fimmtíu til sextíu kennarar og prófessorar við deildina og um fimm hundruð nemendur. Deildin er með eigin byggingu og eigið bókasafn í vesturhluta Cambridge og það er gott bæði náms- og félagslega að hafa aðstöðu þar. En aðalástæðan fyrir því að námið í Cambridge heillaði mig meira en sambærilegt nám á öðrum stöðum var að sú undirgrein fornfræði sem ég hef mestan áhuga á, þ.e. klassísk málvísindi og söguleg félagsmálfræði, er einstaklega sterk í Cambridge,“ segir Sólveig.

Hún segir háskólasvæðið og nágrenni Cambridge einnig mjög skemmtilegt. „Cambridge er nálægt London sem er skemmtilegt en bærinn sjálfur er rólegur. Hér er mikið af gömlum byggingum og grænum svæðum þar sem maður getur til dæmis oft séð kýr á beit. Ég og kærastinn minn, Oddur Snorrason sem er líka hérna í meistaranámi, erum bæði meðlimir í Jesus College en það er einn af 31 slíkum í Cambridge. Þar sem bæði skólinn, deildirnar og college-in standa fyrir ýmsum viðburðum er margt í boði og alltaf eitthvað skemmtilegt á döfinni,“ bætir hún við.

Ekki talað fullkomið mál í fortíðinni frekar en nú

Doktorsverkefni Sólveigar verður á sviði latneskrar félagsmálfræði sem er að hennar sögn ný og vaxandi undirgrein innan klassískra fræða. „Ég mun einblína á tengslin á milli félagslegrar stöðu og málnotkunar í latneskum bréfum, m.a. skrifuð til og frá mönnum eins og rómverska ræðumanninum Cicero og Ágústínusi kirkjuföður. Þetta verkefni ætti að opna möguleika á nýjum rannsóknum á latneskum verkum þar sem tengslin á milli félagslegrar stöðu latneskra höfunda og málnotkunar þeirra hefur ekki verið rannsökuð áður á kerfisbundinn hátt. Ég mun vinna með sama leiðbeinanda og ég hef verið með núna í meistaranáminu, James Clackson, sem er sérfræðingur á þessu sviði og hefur reynst mér mjög vel hingað til,“ útskýrir Sólveig.

Klassiska deildin

Fornfræðideildin við Cambridge-háskóla er afar stór.

Hún segir vonast til þess að rannsóknin leiði í ljós að breytileiki í málnotkun hafi alltaf verið til staðar. „Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, hefur t.d. unnið mikilvægt starf á síðustu árum gegn málfordómum í íslensku nútímasamfélagi. Hluti af því að uppræta málfordóma er að hrekja þær hugmyndir um að í fortíðinni hafi málið verið fullkomið og að allir hafi talað „rétt“ o.s.frv. Það á hvorki við um forníslensku né latínu, þótt það sé oft hugmyndin sem fólk hefur um þessi fornu mál.“ 

Mörg tækifæri fyrir fornfræðinga

Einhver velta eflaust fyrir sér hvaða erindi fornfræðin og klassísk mál eiga við samtímann þar sem hraði, tækni og örar breytingar eru einkennandi. „Þar sem fornfræði og klassísk mál eru að einhverju leyti minnihlutafög hér á landi þá kemur það fólki stundum á óvart hvað það eru mörg tækifæri sem hægt er að fá í tengslum við nám í þessum fögum. Þetta eru stór fög í mörgum löndum, til dæmis á Ítalíu, Þýskalandi og á Bretlandi. Nám í fornfræði er góður undirbúningur fyrir margvísleg störf, bæði kennslu og svo á sviði stjórnsýslu og lögfræði, í fjölmiðlum og menningargeiranum o.sfrv. Fornfræðingar hér á landi hafa numið við marga af bestu háskólum heims, bæði Cambridge, Oxford, Princeton og Harvard, og þeir vinna í ýmsum ólíkum störfum, t.d. í HÍ og í stjórnmálageiranum,“ bendir Sólveig á. Þá undirstrikar hún einnig að ýmis rit hér á landi frá miðöldum og stór hluti lærdóms fyrri alda sé einungis aðgengilegur á latínu og því sé mjög mikilvægt að við höldum áfram að sinna þessum fögum hér á landi.

En hvert skyldi hugurinn stefna að loknu doktorsnámi? „Ég stefni á að starfa sem fræðimaður og að sinna bæði kennslu og rannsóknum á háskólastigi. Ég fékk mörg skemmtileg tækifæri til þess að prófa hvort tveggja meðan ég var í grunnnámi í HÍ. Ég var til dæmis aðstoðarkennari í byrjendaáföngum í latínu og grísku í Mála- og menningardeild, vann í Ritveri HÍ og í sumarstarfi með latnesk handritabrot á Íslandi á Árnastofnun. Ég hlakka til þess að halda áfram á þessari braut,“ segir Sólveig að endingu um framtíðaráformin. 

Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir