Skip to main content
2. október 2018

Fagna samstarfi um klínískt nám í lyfjafræði

Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, Landspítali, Lyfjafræðingafélag Íslands, University College London og Royal Pharmaceutical Society fögnuðu því 4. október að tvö ár eru síðan samstarf þeirra um klínískt nám í lyfjafræði hófst hér á landi. Af því tilefni var efnt til hátíðardagskrár síðdegis á Litla torgi.

Klínískt nám í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands hófst haustið 2016. Námið er launað starfsnám til þriggja ára sem lýkur með MS-gráðu frá Lyfjafræðideild. Tveir nemendur hafa verið teknir inn í námið á hverju hausti en fyrstu nemendurnir munu útskrifast næsta haust. Markmið námsins er að þjálfa og þróa hæfni lyfjafræðinga í grundvallarþáttum klínískrar lyfjafræði og sjúkrahúslyfjafræði. Námið fer að mestu fram á  Landspítala.

Námið er samstarfsverkefni ofangreindra aðila. Samstarfið felur meðal annars í sér að Lyfjafræðideild og Landspítali hafa nýtt sér kennsluviðmið úr sambærulegu námi við University College London og fengið leiðbeiningar við uppbyggingu, skipulag námsins á Íslandi og þjálfun leiðbeinenda.

Á hátíðardagskránni voru meðal annars mælendur frá University College London og International Pharmaceutical Federation.  Þá tóku einnig til máls Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, Inga J. Arnardóttir, yfirlyfjafræðingur Landspítala, og Freyja Jónsdóttir, kennslustjóri klíníska námsins og Einar Magnússon frá velferðarráðuneytinu.

Fleiri myndir frá hátíðardagskránni

Gestir á hátíðardagskrá
Gestir á hátíðardagskrá