Skip to main content
26. apríl 2018

Fagna aukinni geðheilbrigðisþjónustu fyrir nemendur

„Þessi niðurstaða er ein skýrasta mynd þess hversu áhrifarík og mikilvæg hagsmunabarátta stúdenta er og að hlustað sé á raddir stúdenta í Háskóla Íslands. Ég fagna samvinnu háskólans og stúdenta og er vongóð um áframhaldandi farsælt samstarf,“ segir Elísabet Brynjarsdóttir, nýr forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, um þá ákvörðun Háskólans að ráða tvo sálfræðinga við Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands og mynda geðheilbrigðisteymi sem hefur yfirsýn og þróar geðheilbrigðisþjónustu við skólann. Í teyminu sitja námsráðgjafar, sálfræðingar, geðlæknar og fulltrúar stúdenta. Með þessu vill skólinn bregðast við ákalli stúdenta um aukna þjónustu á þessu sviði. Stöðurnar bætast við margvíslega stoðþjónustu sem nú þegar stendur stúdentum til boða.

Mikil umræða hefur verið um geðheilsu ungs fólks að undanförnu sem m.a. má rekja til ýmissa herferða á samfélagsmiðlum og víðar. Háskóli Íslands leitar sífellt leiða til að gera sem best við nemendur sína, þar á meðal í þjónustu tengdri geðheilsu enda góð andleg líðan ein af forsendum þess að fólki vegni vel í námi. 

Í framhaldi af samtali við Stúdentaráð Háskóla Íslands var ákveðið að ráða fleiri sálfræðinga til skólans sem lið í bættri þjónustu á þessu sviði og stofana sérstakt teymi sem tryggir samfellu í þeirri þjónustu sem fyrir er og þróun hennar. Elísabet Brynjarsdóttir fagnar þessari vinnu sem háskólinn hafi sett af stað í kjölfar þrýstings frá stúdentum. „Undanfarið ár var hávær krafa frá Stúdentaráði um að geðheilbrigðisþjónusta stúdenta yrði bætt í kjölfar mikillar umræðu í samfélagi sem og rannsókna á geðheilbrigði ungmenna,“ segir hún. 

Ýmiss konar þjónusta þegar í boði
Nú þegar er starfandi sálfræðingur í hálfu starfi hjá Náms- og starfsráðgjöf Háskólans. Sálfræðingurinn hefur bæði veitt einstaklingsviðtöl  og sinnt námskeiðahaldi og fræðslu fyrir stúdenta um streitustjórnun og sjálfstyrkingu og í samstarfi við sérþjálfaða starfsmenn náms- og starfsráðgjar staðið fyrir prófkvíðanámskeiðum reglulega. Auk þess veita starfsmenn Náms- og starfsráðgjafar á hverjum degi fjölbreyttum hópi nemenda stuðning við úrlausn margvíslegra mála sem hvíla á þeim en alls nýttu hátt í 3200 einstaklingar sér fjölbreytta þjónustu ráðgjafarinnar og voru heimsóknir samanlagt rúmlega 5600.  

Fjölbreytt fræðsluefni um geðheilbrigði má enn fremur finna á vef Náms- og starfsráðgjafar

Við þetta má bæta að Sálfræðiráðgjöf háskólanema hefur verið starfrækt frá árinu 2013 á vegum Sálfræðideildar en þar veita sálfræðinemar undir handleiðslu kennara háskólastúdentum og börnum þeirra aðstoð m.a. við að ná markmiðum sínum, leysa úr sálrænum vanda, bæta samskipti sín við annað fólk og vinna að bættri heilsu og líðan. Sjá nánar á vef Háskólans.
 

Elísabet Brynjarsdóttir