Skip to main content
5. janúar 2021

Færðu Kvennaathvarfinu gjöf í minningu Viktors E. Frankl

Færðu Kvennaathvarfinu gjöf í minningu Viktors E. Frankl - á vefsíðu Háskóla Íslands

Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hefur fært Samtökum um kvennaathvarf eina milljón króna að gjöf, til minningar um Viktor E. Frankl, höfund bókarinnar Leitin að tilgangi lífsins, sem gefin var út í íslenskri þýðingu árið 1997 á vegum Háskólaútgáfunnar og Siðfræðistofnunar. Frankl kaus að láta höfundarlaun renna til góðs málstaðar sem snertir velferð barna. Að þessu sinni urðu Samtök um kvennaathvarf fyrir valinu, en sem kunnugt er hefur mikið mætt á starfsemi samtakanna á þessu ári og aldrei hafa fleiri börn dvalið í athvarfinu yfir jól en nú í ár. Þess má geta að nýlega réðu samtökin til sín verkefnastjóra til þess að sinna sérstaklega málefnum barna sem leita skjóls í athvarfinu. Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, veitti gjöfinni viðtöku í dag.

Það er frumskylda hvers samfélags að tryggja börnum öruggt umhverfi, umhyggju og velferð. Samtök um kvennaathvarf hafa um árabil sinnt þessu mikilvæga hlutverki af alúð gagnvart börnum sem búa við ofbeldi á heimilum sínum. Það er von stjórnar Siðfræðistofnunar að þessi gjöf geri samtökunum kleift að bæta aðstöðu sína og þjónustu við börn.

Leitin að tilgangi lífsins kom fyrst út á vegum Siðfræðistofnunar og Háskólaútgáfunnar í þýðingu Hólmfríðar Gunnarsdóttur árið 1997. Bókin var endurútgefin árið 2007. Höfundur bókarinnar Viktor E. Frankl var austurrískur geðlæknir. Hann var upphafsmaður kenningar í sálarfræði sem nefnd er lógóþerapía eða tilgangsmeðferð. Þar er lögð áhersla á að í lífi sérhvers manns sé einstakur tilgangur sem hver og einn verði að finna og skapa fyrir sjálfan sig. Frankl sat á unga aldri í fangabúðum nasista og notar reynslu sína úr fangabúðunum sem undirstöður kenninga sinna. Frásögnin úr fangabúðunum hefur fyrst og fremst þann tilgang að sýna fram á gildi kenningarinnar en ekki að rekja hörmungar fangabúðarlífsins.

Gordon W. Allport prófessor í sálarfræði skrifar formála að bókinni og segir m.a.: „Ég mæli af heilum hug með þessari bók því að hún er dramatísk frásagnarperla sem fjallar um mesta vanda mannsins. Hún hefur bókmenntalegt og heimspekilegt gildi og er nauðsynlegur inngangur að merkustu sálfræðistefnu nútímans.“

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, Páll Rafnar Þorsteinsson, sérfræðingur hjá Siðfræðistofnun og Vilhjálmur Árnason, stjórnarformaður stofnunarinnar.
Viktor Frankl