Skip to main content
17. nóvember 2020

Eyjólfur Eyfells ráðinn til UArctic fyrstur Íslendinga

Eyjólfur Eyfells hefur verið ráðinn verkefnastjóri fjármögnunar hjá University of the Arctic (UArctic) eða Háskóla norðurslóða. 

UArctic er samstarfsnet um 200 háskóla og rannsóknarstofnana sem eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á málefni norðurslóða. Markmið UArctic er að efla nám og rannsóknir á háskólastigi á norðurslóðum. Einkum er unnið að því að styrkja nemendur til skiptináms, efla samstarf um nám og rannsóknir og að koma á samstarfsnetum á fjölmörgum sviðum sem snúa að mannlífi og náttúru. Með samvinnu sem þessari hefur tekist að dýpka skilning á norðurslóðum sem hefur haft í för með sér jákvæð áhrif á umhverfi, bætt lífskjör fyrir innfædda og samfélög í norðri. Auk þess hefur samvinnan ýtt undir sjálfbærni hagkerfa. Allir háskólar á Íslandi eru aðilar að UArctic.  

Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur er ráðinn beint til starfa fyrir UArctic og er ráðning Eyjólfs liður í því átaki að efla enn frekar samstarf og auka stuðning við menntun, rannsóknir og aðgerðir á vettvangi UArctic. Starfsaðstaða hans verður hjá Rannsóknasetri um norðurslóðir, til húsa hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. 

„Öflun fjár til stúdentaskipta og rannsóknarverkefna fær nú aukið vægi innan UArctic og það er ánægjuefni að það átak sem nú er að fara af stað verði að stórum hluta unnið við Háskóla Íslands. Stjórn UArctic metur það mikils að hafa fengið Eyjólf inn í fámennan en öflugan hóp starfsmanna. Auk þess að opna stúdentum tækifæri á vegum UArctic og efla fræðastarf á norðurslóðum mun vinna Eyjólfs og samstarfsfólks án efa auka þekkingu hér á landi á fjáröflun utan hefðbundinna rannsóknarsjóða og þeim tækifærum sem bjóðast á þeim vettvangi,” segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í UArctic.

Eyjólfur er með MA-gráðu í alþjóðasamskiptum og MPM-gráðu í verkefnastjórnun. Hann hefur starfað sl. 4 ár sem verkefnastjóri hjá Mountaineers of Iceland og hefur auk þess töluverða reynslu af alþjóðlegu samstarfi. Hann er kvæntur Masumi Eyfells og eiga þau tvö börn.
 

Eyjólfur Eyfells