Skip to main content
25. mars 2019

Ester nýr starfsþróunarstjóri Menntavísindasviðs

Ester Ýr Jónsdóttir hefur verið ráðin starfsþróunarstjóri hjá Menntavísindastofnun Menntavísindasviðs Háskóla Íslands frá og með 1. mars síðastliðnum. Hún mun meðal annars koma að og bera ábyrgð á stefnumótun Menntavísindasviðs um starfsþróun þeirra fagstétta sem sviðið menntar. Enn fremur mun hún stýra framboði starfsþróunar fyrir ólíkar fagstéttir í samstarfi við deildarforseta, kennara og annað starfsfólk sviðsins og styðja við ýmis nýsköpunar- og þróunarverkefni á fræðasviðinu, auk annarra verkefna.

Ester lauk BS-prófi og cand. scient-prófi í lífefnafræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Þá lauk hún viðbótardiplómu í kennsluréttindum frá Kennaraháskóla Íslands. Síðastliðið ár sinnti Ester störfum fyrir Menntavísindastofnun við undirbúning starfsþróunar fyrir skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Undanfarin ár hefur hún starfað sem verkefnisstjóri NaNO-verkefnisins sem miðar að því að efla náttúrufræðimenntun í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Netfang Esterar Ýrar er esteryj@hi.is og verður hún með aðsetur á Menntavísindastofnun. 

Við bjóðum Ester Ýri velkomna til starfa.

Ester Ýr Jónsdóttir hefur verið ráðin starfsþróunarstjóri hjá Menntavísindastofnun Menntavísindasviðs Háskóla Íslands frá og með 1. mars síðastliðnum.