Erfðagjafir nýtast Háskólanum vel en bæta mætti skattaumhverfi styrktarsjóða | Háskóli Íslands Skip to main content
4. október 2019

Erfðagjafir nýtast Háskólanum vel en bæta mætti skattaumhverfi styrktarsjóða

""

Styrktarsjóðir sem stofnaðir hafa verið við Háskóla Íslands í tengslum við gjafir frá velunnurum hafa nýst skólanum afar vel en skatttar á fjármagnstekjur þeirra koma í veg fyrir að þeir geti stutt enn betur við rannsóknir og nám. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Gylfa Magnússonar, dósents og formanns Styrktarsjóða Háskóla Íslands, á málþingi um erfðagjafir sem sjö góðgerðarfélög stóðu fyrir á dögunum.

Í erfðagjöfum felst það að ánafna hluta af eigum sínum eftir sinn dag til málefnis sem viðkomandi er annt um. Á málþinginu kom fram að minna er um erðagjafir hér á landi en í nágrannalöndunum og er ein ástæða þess talin vera óhagfelld skattalöggjöf. 

Háskóli Íslands hefur notið mikillar velvildar á undanförnum árum og hafa nokkrir sjóðir verið stofnaðir í kjölfar veglegra erfðagjafa. Þeir styðja m.a. rannsóknir tengdar íslenskri tungu og bæklunarlækningum ásamt því að styrkja efnilega nemendur til frekara náms í greinum eins og viðskiptafræði og ljósmóðurfræði, svo dæmi séu tekin. Þannig halda sjóðirnir á lofti minningum um tiltekna einstaklinga eða minna á tiltekið málefni.

Eignir þeirra 45 sjóða sem tengjast Háskóla Íslands eru nú um sex milljarðar króna og á síðasta ári voru rúmlega 100 milljónir króna veittar úr þeim til ýmissa verkefna.

Háskólasjóður Eimskipafélagsins er stærstur sjóðanna og mjög gott dæmi um vel heppnaðan sjóð sem hefur lifað lengi og veitt mikilvæga styrki. Stofnframlag sjóðsins árið 1964 voru hlutabréf sem Vestur-Íslendingar höfðu keypt í Eimskipafélaginu við stofnun þess 1914. Hlutabréfunum var safnað vestanhafs og þau gefin til minningar um Vestur-Íslendinga. Undanfarin ár hefur sjóðurinn fyrst og fremst veitt  styrki til framfærslu doktorsnema og hefur það skipt sköpum við uppbyggingu þess náms við Háskóla Íslands. 

Styrktarsjóðir þurfa að greiða fjármagnstekjur ólíkt lífeyrissjóðum

„Ólíkt lífeyrissjóðum þá njóta styrktarsjóðirnir hins vegar ekki skattfrelsis vegna fjármagnstekna. Það vegur þungt í uppgjöri sjóðanna og dregur mjög úr getu þeirra til styrkveitinga. Raunar fer því ekki fjarri að sjóðirnir greiði jafnmikið í fjármagnstekjuskatt og þeir geta greitt í styrki,“ benti Gylfi á í ræðu sinni og sagði enn fremur að lækkandi raunvextir á markaði ynnu einnig mjög gegn sjóðunum. Vegna þessa gæti verið skynsamlegt að beina gjöfum frekar í þann farveg að vera nýttar á tilteknu árabili, uns sjóðurinn tæmist, í stað þess að stofna sjóði sem eiga að verða til að eilífu. 

Þá benti Gylfi enn fremur á að ekki væri gefinn nokkurs konar skattafráttdráttur til einstaklinga vegna peningagjafa til góðgerðarmála eða stofnana eins og Háskóla Íslands ólíkt því sem tíðkaðist í nágrannalöndunum. Skattfrádráttur fyrirtækja vegna slíkra gjafa væri einnig mjög takmarkaður. 

Algengt er í erlendum háskólum, sérstaklega í Bandaríkjunum, að starfsemi styrktarsjóða sé mjög viðamikil og markvisst unnið að fjársöfnun vegna þeirra en Háskóli Íslands hefur verið mun lágstemmdari í sinni fjáröflun, að sögn Gylfa. „Hins vegar er þeim vitaskuld tekið vel sem hafa hug á að stofna sjóð sem tengist Háskólanum eða gefa til hans. Þeim er leiðbeint um hvernig best er að standa að því og að hverju þarf að huga.“

Hann sagði enn fremur að hugmyndin um erfðagjafir til góðra mála væri lofsverð og gjarnan mætti vera meira um slíkar gjafir hér á landi. „Við tökum ekki veraldlegar eigur með okkur þegar við yfirgefum Hótel Jörð. Er því ekki tilvalið að reyna að nýta þær til þess að bæta lífið fyrir næstu gesti?“ sagði Gylfi að endingu.

Gylfi Magnússon