Skip to main content
4. desember 2019

Endurnýja samstarfssamning um sebrafiskarannsóknir

Endurnýja samstarfssamning um sebrafiskarannsóknir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Karl Ægir Karlsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík og framkvæmdastjóri fyrirtækisins 3Z, og Þórarinn Guðjónsson, prófessor og formaður stjórnar Lífvísindaseturs Háskólans, undirrituðu á dögunum samning um áframhaldandi rannsóknasamstarf í lífvísindum tengdum sebrafiskum.

Aðilarnir þrír hafa undanfarin tvö ár átt í samstarfi um vísindarannsóknir í svokölluðum sebrafiskadýramódelum en þau þykja henta afar vel til rannsókna á því hvaða hlutverki tiltekin gen gegna og má m.a. nota til að líkja eftir sjúkdómum manna. Vísindamenn við Lífvísindaseturs HÍ og 3Z hafa til að mynda átt afar gott samstarf um rannsóknir þar sem hin þekkta CRISPR-tækni er notuð til að útbúa stökkbreytingar í genum sebrafiska sem tengjast sjúkdómum í mönnum. Með þessum rannsóknum má meta áhrif stökkbreytinganna á starfsemi fiskanna og um leið hvaða hlutverkum genin gegna.

Samningurinn kveður á um samnýtingu á rannsóknartækjum, aðstöðu og sérþekkingu, uppbyggingu aðstöðu og skilgreiningu á sameiginlegum verkefnum sem falla að rannsóknaáherslum vísindamanna þvert á stofnanir. Þá munu samningsaðilarnir þrír leitast við að sækja sameiginlega um styrki í innlenda og erlenda sjóði til rannsókna.

Aðstaða til sebrafiskarannsókna er nú þegar til staðar við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og þar hefur fyrirtækið 3Z aðstöðu. Við Lífvísindasetur Háskólans er hins vegar góð aðstaða til margvíslegra rannsókna á sviði sameindalíffræði. Gert er ráð fyrir gagnkvæmum aðgangi að aðstöðu, tækjum og tækni sem tengjast sebrafiskatilraunum og öðrum rannsóknum á sebrafiskum hjá báðum aðilum.

Enn fremur er skýrt kveðið á um samstarf um birtingar niðurstaðna rannsókna í vísindatímaritum og rétt hvers aðila samningsins sem sneta uppfinningar eða nýjungar sem tengjast starfi þeirra og samstarfi.

Samningurinn nýi er til þriggja ára.

Frá vinstri: Þórarinn Guðjónsson, Jón Atli Benediktsson og Karl Ægir Karlsson