Eitt sérstakasta bókmenntaverk 20. aldar í íslenskri þýðingu | Háskóli Íslands Skip to main content

Eitt sérstakasta bókmenntaverk 20. aldar í íslenskri þýðingu

14. desember 2017

Þýðingasetur Háskóla Íslands hefur gefið út bókina Jakob von Gunten eftir svissneska höfundinn Robert Walser. Þetta er önnur bókin sem gefin er út í ritröðinni Fagurbókmenntir Þýðingaseturs en það er markmið setursins að gefa út mikilvæg verk í góðum þýðingum, einmála eða tvímála eftir aðstæðum hverju sinni.

Sagan af Jakobi von Gunten er eitt af sérstökustu og annarlegustu bókmenntaverkum 20. aldar. Nóbelshöfundurinn J.M. Coetzee segir í grein um Robert Walser að aðalpersóna bókarinnar eigi sér engin fordæmi í bókmenntum og að einn helsti aðdáandi hans hafi verið Franz Kafka, enda má geina ákveðinn skyldleika með þessum höfundum. Hingað til hafa aðeins nokkrar smásögur eftir Walser verið þýddar á íslensku, en hér með er hans helsta verk komið út á því „ástkæra, ylhýra“. Walser hefur notið mikillar viðurkenningar á undanförnum árum og verið „uppgötvaður“ á ný eftir tímabil gleymsku og telst nú til merkustu höfunda frá Sviss á liðinni öld. Hann ólst upp í Biel í Sviss og lærði til bankamanns áður en hann stundaði nám í þjónaskóla í Berlín. Hann hóf ferilinn með ljóðum og ritaði nokkrar skáldsögur í Berlín, auk sinna kunnu smáprósa. Hann flutti aftur til Sviss og ritaði verk af ýmsum toga, skáldsögur, prósaverk og ljóð. Hann átti við andleg veikindi að stríða á síðari hluta ævinnar og dvaldi á heilsuhælum til æviloka. 

Þýðandi bókarinnar er Níels Rúnar Gíslason, rithöfundur túlkur og þýðandi. Hann er höfundur ævisögu Dags Sigurðarsonar ljóðskálds, Gott á pakkið. Níels lauk meistaraprófi í þýðingafræðum frá Háskóla Íslands og hefur síðan fengist bæði við tækni- og bókmenntaþýðingar úr ensku, rússnesku og þýsku. Ritstjóri bókarinnar er Hjálmar Sveinsson.

Áður hafa komið út á vegum Þýðingaseturs fræðiritið Þýðingar, endurritun og hagræðing bókmenntaarfsins eftir André Lefevere, ljóðabókin Að jaðri heims eftir Manfred Peter Hein, stuttsagan Bartleby skrifari / Bartleby, the Scrivener eftir Herman Melville, og skáldsagan Loftslag eftir Max Frisch.

Forsíða Jakob von Gunten.

Netspjall