Skip to main content
19. september 2018

Eftirbátur - ný skáldsaga eftir Rúnar Helga

Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hefur sent frá sér skáldsöguna Eftirbátur. Sagan er áttunda skáldverk hans en fyrir sitt síðasta skáldverk, smásagnasafnið Ást í meinum, hlaut hann Menningarverðlaun DV.

Eftirbátur fjallar um auglýsingamanninn Ægi sem leitar að föður sínum eftir að fiskibátur hans finnst mannlaus út af Vestfjörðum. Ægir neitar að trúa því að faðir hans hafi fallið útbyrðis og heldur af stað í leit að honum. Leitarleiðangrar Ægis vekja spurningar um faðernið sjálft í þessum harðbýla heimshluta. Hver er hinn raunverulegi faðir og hvað mótaði hann? Er nauðsynlegt að þekkja söguna til að vita hver maður er? Þetta vefst fyrir Ægi sem lifir og hrærist í núi auglýsingaheimsins og veit „andskotann ekkert um fortíðina“. Í leit sinni fer hann vítt og breitt um stórbrotna náttúru og sögu Vestfjarða þar sem rætur hans sjálfs liggja. Á sama tíma eru blikur á lofti í fjölskyldulífinu og brestir komnir í hina hefðbundnu karlmennskuímynd.

Það er bókaforlagið Dimma sem gefur bókina út.

Rúnar Helgi Vignisson og kápa