Skip to main content
16. september 2019

Efla starfsþróun doktorsnema

""

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands og Náms- og starfsráðgjöf skólans taka höndum saman nú í haust og efla þjónustu við doktorsnema, ekki síst á sviði starfsþróunar.

Á sjöunda hundrað doktorsnema stundar nám á öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands um þessar mundir og hefur fjöldi þeirra vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum samfara eflingu Háskólans sem alþjóðlegs rannsóknarháskóla. Á bilinu 60-80 doktorsnemar hafa enn fremur brautskráðst árlega frá skólanum á síðustu árum.

Hákólinn hefur á síðustu misserum stígið ýmis skref til þess að efla þjónustu sína við þennan mikilvæga nemendahóp, m.a. með vinnustofum sem nefnast verkfærakista doktorsnema auk fyrirlestra og ýmiss konar fræðslu fyrir nemendur.

Náms- og starfsráðgjöf mun í haust koma af auknum krafti inn í þjónustu við doktorsnema, m.a. með því að bjóða þeim upp á einstaklingsviðtöl við náms- og starfsráðgjafa og sálfræðinga en með því er ætlunin að stuðla að aukinni vellíðan og árangri doktorsnema í námi. Jafnframt taka fulltrúar Náms- og starfsráðgjafar þátt í verkfærakistu doktorsnema með vinnustofum þar sem áhersla verður á að auka vitund doktorsnema um að starfsþróun þeirra hefst strax við upphaf doktorsnáms. Einnig er ætlunin að kynna fyrir þeim Tengslatorg Háskóla Íslands sem tengilið út í íslenskt atvinnulíf og þá starfsmöguleika sem nýútskrifuðum doktorum bjóðast utan háskóla.

Fjöldi útskrifaðra doktora hefur aukist til muna frá Háskóla Íslands. Um er að ræða hóp sem hefur sérhæfða þekkingu og reynslu sem nýtist í fræðimennsku og öðrum störfum. Til þess að skapa farsælan starfsferil er nauðsynlegt að doktorsnemar hugi að eigin starfsþróun frá upphafi náms og styrki atvinnuhæfni sína.   

Ásta Gunnlaug Briem og Jónína Kárdal náms- og starfsráðgjafar verða tengiliðir við doktorsnema varðandi starfsþróun og tengsl við atvinnulífið í gegnum Tengslatorg Háskóla Íslands - www.tengslatorg.hi.is.
 

Fulltrúar Miðstöðvar framhaldsnáms og Náms- og starfsráðgjafar sem koma að samstarfinu