Efla kennslu og rannsóknir tengdar íslensku táknmáli | Háskóli Íslands Skip to main content

Efla kennslu og rannsóknir tengdar íslensku táknmáli

28. janúar 2019
""

Háskóli Íslands (HÍ) og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) hafa undirritað samstarfssamning sem hefur það að markmiði að efla bæði kennslu í táknmálsfræði og táknmálstúlkun og rannsóknir og kynningu á íslensku táknmáli og menningarsamfélagi þess. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, og Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, undirrituðu samninginn í Háskóla Íslands á dögunum.

Samningurinn er til fimm ára og mun Hugvísindasvið Háskóla Íslands hafa umsjón með framkvæmd hans af hálfu Háskólans enda fer kennsla í táknmálsfræði og táknmálstúlkun fram innan sviðsins, nánar tiltekið í Íslensku- og menningardeild.

Með samningnum vilja HÍ og SHH nýta styrk beggja stofnana, sérþekkingu og aðstöðu til þess að þróa og efla táknmálsfræði og táknmálstúlkun við HÍ og sjá til þess að færustu sérfræðingar komi að kennslu í greininni hverju sinni. Jafnframt á að efla kynningu á íslensku táknmáli og menningarsamfélagi þess innan lands og í alþjóðlegu fræðasamfélagi, styrkja rannsóknastarf tengt táknmálinu og nýliðun fagfólks á sviði táknmálsfræði og táknmálstúlkunar. 

Starfsfólk frá SHH mun m.a. koma að kennslu í tilteknum námskeiðum í táknmálsfræði og táknmálstúlkun innan HÍ og koma að rannsóknum innan skólans en jafnframt fá fræðimenn og eftir atvikum nemendur Háskólans aðgang að rannsóknargögnum innan SHH. Saman munu HÍ og SHH vinna að þróun námsgreinarinnar og stefnumótun um vísindi og rannsóknarstörf tengd íslensku táknmáli, m.a. á vettvangi Rannsóknastofu í táknmálsfræðum. Samningurinn kveður líka á um að táknmálstúlkar sem starfa hjá SHH sjái um vettvangsnám táknmálstúlkanema.

Stefnt er að því að víkka út samstarfi SHH við Háskólann þannig að það nái til fleiri fræðasviða og deilda en þar er einkum horft til Menntavísindasviðs. Þar liggja ýmis tækifæri, m.a. í að sérhæfa kennara í kennslu barna sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta og menntunar og tryggja rannsóknir á málþroska, máltöku og samskiptum barnanna.
 

Fulltúar Háskóla Íslands og Samskiptamiðstöðvar heyrarlausra og heyrnarskertra við undirritun samningsins. Efri röð frá vinstri: Þórður Kristinsson, ráðgjafi á rektorsskrifstofu, og Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði. Fremri röð frá vinstri: Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.
 Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.