Doktorsvörn í kynjafræði - Laufey Axelsdóttir | Háskóli Íslands Skip to main content

Doktorsvörn í kynjafræði - Laufey Axelsdóttir

7. febrúar 2019

Laufey Axelsdóttir varði doktorsritgerð sína Kynjuð valdatengsl í æðstu stjórnunarstöðum. Starfsþróun, kynjakvótar og kynjajafnvægi í fjölskylduábyrgð (e. Gendered Power Relations in Top Management. Career Progression, Gender Quotas, and Gender-Balanced Family Responsibility) þann 21. janúar síðastliðinn í Hátíðasal Háskóla Íslands. Andmælendur voru dr. Siri Terjesen, prófessor og fræðimaður við American University, Management Dept. og prófessor við Norwegian School of Economics, og dr. Cathrine Seierstad, lektor í alþjóðlegri mannauðsstjórnun við University of London, School of Business and Management. Leiðbeinandi var dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og prófessor í félagsfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, og dr. Sigtona Halrynjo, fræðimaður við Institutt for samfunnsforskning, Oslo. Doktorsvörninni stýrði dr. Maximilian Conrad, deildarforseti Stjórnmálafræðideildar.

Efniságrip: Viðfangsefni rannsóknarinnar er kynjaójafnvægi í æðstu stöðum atvinnulífsins á Íslandi. Markmiðið er að varpa ljósi á hvernig kynjuð valdatengsl í samfélaginu hafa áhrif á tækifæri kvenna og karla í atvinnulífinu með því að rannsaka viðhorf til kynjakvóta (e. gender quotas), starfsþróun og fjölskylduábyrgð stjórnenda. Áhersla er á að skapa þekkingu sem hægt er að nýta til að stuðla að auknu kynjajafnvægi í æðstu stjórnunarstöðum.

Rannsóknin byggir á eigindlegum og megindlegum gögnum. Ásamt því að nýta opinber gögn eins og þingskjöl og blaðagreinar þá eru eru nýtt spurningalistagögn og unnið úr viðtölum við æðstu stjórnendur í fyrirtækjum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að kynjuð valdatengsl í samfélaginu hafa ýtt undir lóðrétta kynjaskiptingu á vinnumarkaðnum og stuðlað að ólíkum tækifærum fyrir konur og karla í atvinnulífinu. Til að stuðla að auknu kynjajafnvægi er mikilvægt að afbyggja karllæga menningu innan fyrirtækja með breyttu verklagi við ráðningar og auknu kynjajafnvægi í fjölskylduábyrgð. Kynjakvótar hafa nú þegar haft áhrif á kynjuð valdatengsl í stjórnum þar sem konum hefur fjölgað. Aftur á móti benda niðurstöðurnar til þess að stjórnendur séu andsnúnir frekari áhrifum kynjakvóta og minnkar sú andstaða smitáhrif yfir í framkvæmdastjórnir fyrirtækja. Engu að síður sýnir rannsóknin hvernig kynjakvótar gætu skapað vettvang fyrir slíkar breytingar þar sem breytt kynjatengsl geta stuðlað að jafnari tækifærum fyrir konur og karla.

Laufey Axelsdóttir

Netspjall