Doktorsvörn í kynjafræði - Laufey Axelsdóttir | Háskóli Íslands Skip to main content
7. febrúar 2019

Doktorsvörn í kynjafræði - Laufey Axelsdóttir

Laufey Axelsdóttir varði doktorsritgerð sína Kynjuð valdatengsl í æðstu stjórnunarstöðum. Starfsþróun, kynjakvótar og kynjajafnvægi í fjölskylduábyrgð (e. Gendered Power Relations in Top Management. Career Progression, Gender Quotas, and Gender-Balanced Family Responsibility) þann 21. janúar síðastliðinn í Hátíðasal Háskóla Íslands. Andmælendur voru dr. Siri Terjesen, prófessor og fræðimaður við American University, Management Dept. og prófessor við Norwegian School of Economics, og dr. Cathrine Seierstad, lektor í alþjóðlegri mannauðsstjórnun við University of London, School of Business and Management. Leiðbeinandi var dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og prófessor í félagsfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, og dr. Sigtona Halrynjo, fræðimaður við Institutt for samfunnsforskning, Oslo. Doktorsvörninni stýrði dr. Maximilian Conrad, deildarforseti Stjórnmálafræðideildar.

Efniságrip: Viðfangsefni rannsóknarinnar er kynjaójafnvægi í æðstu stöðum atvinnulífsins á Íslandi. Markmiðið er að varpa ljósi á hvernig kynjuð valdatengsl í samfélaginu hafa áhrif á tækifæri kvenna og karla í atvinnulífinu með því að rannsaka viðhorf til kynjakvóta (e. gender quotas), starfsþróun og fjölskylduábyrgð stjórnenda. Áhersla er á að skapa þekkingu sem hægt er að nýta til að stuðla að auknu kynjajafnvægi í æðstu stjórnunarstöðum.

Rannsóknin byggir á eigindlegum og megindlegum gögnum. Ásamt því að nýta opinber gögn eins og þingskjöl og blaðagreinar þá eru eru nýtt spurningalistagögn og unnið úr viðtölum við æðstu stjórnendur í fyrirtækjum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að kynjuð valdatengsl í samfélaginu hafa ýtt undir lóðrétta kynjaskiptingu á vinnumarkaðnum og stuðlað að ólíkum tækifærum fyrir konur og karla í atvinnulífinu. Til að stuðla að auknu kynjajafnvægi er mikilvægt að afbyggja karllæga menningu innan fyrirtækja með breyttu verklagi við ráðningar og auknu kynjajafnvægi í fjölskylduábyrgð. Kynjakvótar hafa nú þegar haft áhrif á kynjuð valdatengsl í stjórnum þar sem konum hefur fjölgað. Aftur á móti benda niðurstöðurnar til þess að stjórnendur séu andsnúnir frekari áhrifum kynjakvóta og minnkar sú andstaða smitáhrif yfir í framkvæmdastjórnir fyrirtækja. Engu að síður sýnir rannsóknin hvernig kynjakvótar gætu skapað vettvang fyrir slíkar breytingar þar sem breytt kynjatengsl geta stuðlað að jafnari tækifærum fyrir konur og karla.

Laufey Axelsdóttir