Doktorsneminn Helga Kristín miðlar þekkingu á Instagram  | Háskóli Íslands Skip to main content
25. mars 2020

Doktorsneminn Helga Kristín miðlar þekkingu á Instagram 

Háskóli Íslands stuðlar að aukinni þátttöku nemenda af öllum fræðasviðum í samfélagsverkefnum sem tengjast þeirra fagsviði. Hluti af þessu er að nemendur miðli þekkingu og mikilvægi um fræði og rannsóknir á þeirra fagsviði til almennings. Helga Kristín Torfadóttir stundar doktorsnám í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands en hún hefur vakið feiknarathygli fyrir vísindamiðlun á eigin Instagram-síðu undanfarin misseri. Þar deilir hún fróðleik á mannamáli um ótrúlegustu undur sem snerta jarð- og jöklafræði. Instagram-reikningurinn hennar heitir geology_with_helga.

Hún heldur jafnvel uppi prófum á Instagram sem eru notendum reyndar einungis til skemmtunar en sýna engu að síður hvar hver og einn er staddur í „sjálfsnáminu“ hjá doktorsnemanum. 

„Framan af var þetta einungis mér sjálfri til skemmtunar,“ segir Helga Kristín um þetta sjálfsprottna verkefni sitt á samfélagsmiðlinum. „Hugmyndin að Instagram-síðunni kviknaði frekar snemma, þ.e. að deila myndum sem ég tek á ferðalögum mínum ásamt fróðleik um jarðfræði. Ég tek mikið af ljósmyndum, bæði á venjulega myndavél en líka á dróna.“

Viðbrögðin hafa verið mögnuð en Helga Kristín hefur á ótrúlega skömmum tíma safnað hátt á sjötta þúsund fylgjendum og ekki er óalgengt að hátt í þúsund manns setji „læk“ við hverja færslu hjá henni og bæti inn tugum athugasemda. „Fólki finnst þetta mjög áhugavert og ég fæ fullt af fallegum skilaboðum. Það er virkilega gaman þegar fólk kann að meta efnið sem ég bý til og deilir með mér áhuga á jarðfræði. Það fylgir þessu líka að maður fær stundum áhugaverð skilaboð, t.d. fólk sem vill að ég ráði þau í vinnu eða geri heimavinnuna þeirra fyrir þau,“ segir Helga Kristín og hlær.

Helga Kristín lætur ekki bara hér við sitja í vísindamiðlun því hún mun halda með hópi göngufólks á vegum Ferðafélags Íslands og Háskólans á Helgafell við Hafnarfjörð næsta haust þar sem hún mun lýsa tilurð þess sem fyrir augu ber í jarðfræðilegum skilningi. Gangan er liður í samstarfsverkefni HÍ og FÍ sem ber heitið Með fróðleik í fararnesti. 

Með vísindin í blóðinu – Prófaði geimbúning á Vatnajökli

Helga Kristín segist alltaf verið „svaka nörd“ og haft mikinn áhuga á vísindum og náttúru alveg frá því að hún var smábarn. „Ég tengi mikið við hvaða vísindagrein sem er og áður en ég uppgötvaði ástríðu mína fyrir jarðfræði stefndi ég á læknisfræði. Ég hef líka mikinn áhuga á útivist, ævintýrum og ljósmyndun og jarðfræðin sameinar alla þessa þætti.“

Að vissu leyti fékk Helga Kristín útrás fyrir þetta allt síðastliðið sumar, kannski ekki síst ævintýraþrána, þegar hún prófaði geimbúning sem áformað er að NASA noti við ferðir til reikistjörnunnar Mars. Hún prófaði búninginn við Grímsvötn í Vatnajökli en áformað er að senda mannað geimfar til Mars eftir rétt tíu ár.  

Helga Kristín hefur auðvitað mikinn áhuga á öllu sem viðkemur geimnum enda fæst aukinn skilningur á eðli alheimsins með rannsóknum í jarðvísindum. 

Móberg og móberg eru sko ekki eitt og það sama

Áhugi Helgu Kristínar á bergfræði hefur ekki bara skilað sér í rannsóknum og námi því hún valdi nafn á hund fjölskyldunnar með vísan í einkennisbergtegund ísaldar á Íslandi. Hundurinn er móbrúnn labrador-rakki sem heitir Móberg en móberg verður einmitt til við þær aðstæður sem eru afgerandi í þeim fjöllum sem Helga Kristín rannsakar, í gosi undir jökli. Núna vinnur Helga Kristín að rannsóknum á eldstöðinni í Öræfajökli ásamt eldfjallinu Beerenberg á Jan Mayen. 

Hún segist dugleg að rannsaka móberg og að viðra Móberg, ekki hvað síst núna þegar móðir hennar á ekki færi á því að fara út með hundinn. Móðir Helgu Kristínar er nefnilega Alma Dagbjört Möller landlæknir sem verið hefur mjög áberandi í fjölmiðlum undanfarið vegna viðbragða yfirvalda við COVID-19 faraldrinum.

Helga Kristín prófaði geimbúning sem áformað er að NASA noti við ferðir til reikistjörnunnar Mars. Hún prófaði búninginn við Grímsvötn í Vatnajökli en áformað er að senda mannað geimfar til Mars eftir rétt tíu ár.  MYND/ Michael Lye

Rannsakar Öræfajökul og Beerneberg á Jan Mayen

„Þótt valið hafi verið erfitt ákvað ég að fara í eldfjalla- og bergfræði í meistaranáminu,“ segir Helga Kristín. „Þar vann ég rannsóknir tengdar Öræfajökli. Afrakstur þeirra rannsókna var mikið magn af gögnum sem nýtist áfram í þeim rannsóknum sem ég stunda nú í doktorsnáminu.“ 

Með því að rannsaka þessi tvö eldfjöll vonast hún til að greina kvikuhólfin undir þeim báðum. „Markmiðið er að sjá hvernig þau hafa þróast í tímans rás og hversu margir kvikupokar liggja undir þeim. Hugsanlega hefur þynning jökulsins á Beerneberg getað hleypt eldgosum af stað. Við það að þessu fargi var lyft af jöklinum er mögulegt að þrýstingi hafi verið létt af kvikupokunum og að það hafi komið gosum af stað. Það verður áhugavert hvort rannsóknir mínar geti leitt líkur að þessari kenningu. Þessar upplýsingar gætu verið mikilvægar á komandi árum í kjölfar hamfarahlýnunar og áhrifa hennar á jökla enda eru stærstu eldstöðvar Íslands undir jökli.“

Öræfajökull er gríðarleg eldkeila í syðsta parti Vatnajökuls með myndalegri jökulhettu sem fyllir stóra öskju efst á fjallinu. Jarðskjálftahrina varð í Öræfajökli árið 2017 og mældust þá uppleyst efni í Kvíá sem rennur undan jöklinum. Að sögn Helgu Kristínar gefur það vísbendingar um að kvikuinnskot hafi valdið þessu á fremur litlu dýpi í jarðskorpunni undir jöklinum. Askja jökulsins seig þá um rösklega tuttugu metra. Einnig urðu skjálftar í fjallinu árið 2018. 

„Það eru aðeins tvö þekkt eldgos í Öræfajökli frá landnámi sem við þó vitum að voru mannskæð. Með því að rannsaka eldstöðina frá sjónarhóli jarðfræðinnar getum við gert okkur í hugarlund hvernig þetta hættulega eldfjall hegðar sér. Það getur nýst okkur í undirbúningi fyrir hugsanleg eldsumbrot í framtíðinni. Ef eldfjöll eru mikið rannsökuð og við þekkjum þau vel, eins og t.d. Heklu, getum við nánast spáð fyrir um gos með nokkurra mínútna fyrirvara í ákveðnum tilvikum.“

Áhuginn kemur manni langt

Helga Kristín segir að doktorsverkefnið hafi eðlilega leitt sig til Jan Mayen en þangað fór hún í ágúst síðastliðnum og svaf þá í minnsta húsi í heimi að henni fannst en jarðvísindafólk er sjaldnast með lúxus þegar það vinnur að sínum mikilvægu rannsóknum. „Í þeirri ferð náði ég að safna sýnum frá alla vega sautján mismunandi eldgosum úr Beerenberg. Með greiningu á efnasamsetningu kristallanna úr þessum hraunsýnum reikna ég út á hvaða dýpi þeir mynduðust sem gefur vísbendingar um tilurð kvikupoka þar undir. Aldursgreining á gígum fjallsins mun einnig gefa okkur vísbendingar um gossögu Beerneberg og þar af leiðandi þróun kvikukerfis fjallsins.“

Helga Kristín er gríðarlega ánægð með námið í Háskóla Íslands og hversu samheldinn sá hópur varð sem hóf með henni nám í jarðfræðinni. „Árgangurinn minn í grunnnáminu var mjög góður hópur og við tókum öll mikinn þátt í félagslífinu. Við hittumst ennþá reglulega. Mér fannst námið aldrei sérstaklega erfitt, þótt það hafi verið krefjandi á köflum, enda kemur áhuginn manni langt!“

Helga Kristín á Jan Mayen