Skip to main content
2. nóvember 2020

Doktorsnemar við Háskólann almennt ánægðir með námið

Mikill meirihluti doktorsnema við Háskóla Íslands er mjög eða frekar ánægður með námið við skólann, eða í heildina 74 prósent. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði meðal 648 doktorsnema í sumar. Svarhlutfallið var hartnær 65 prósent en könnunin hefur verið gerð annað hvert ár frá því 2011.

Í könnuninni kemur fram að hartnær níutíu prósent doktorsnemanna  telja námið fræðilega örvandi og að hæfni þeirra hafi aukist við að beita viðeigandi rannsóknaraðferðum og tækni. Svipaður fjöldi doktorsnema telur hæfni sína hafa þróast jákvætt í gagnrýnni greiningu og í mati á niðurstöðum. Í könnuninni kemur einnig fram að hartnær áttatíu prósent nemanna telji að sjálfstaust sitt hafi styrkst og að doktorsnámið hafi aukið hæfni sína við að takast á við ný verkefni.

Í könnuninni kemur fram að sá hluti doktorsnema sem ekki hefur tekist að fjármagna doktorsnám sitt á viðunandi hátt sýnir minnsta ánægju með námið við skólann. Þegar fjármögnun námsins er skoðuð kemur í ljós að minna en helmingur þátttakenda í könnuninni telur að auðvelt hafi reynst að fjármagna námið. Svipað hlutfall segist fjármagna námið með vinnu utan Háskólans. Einungis 36 prósent þátttakenda telja sig geta lokið doktorsnámi á tilsettum tíma.

Í stefnu Háskólans kemur fram að styrkja skuli umgjörð doktorsnáms og að stuðningur við leiðbeinendur og nemendur verði aukinn. Markmið með þessari könnun er m.a. að mæla hvernig til hafi tekist að þessu leyti. 

„Niðurstöðurnar eru áhugaverðar og sýna bæði hvar við stöndum vel að mati doktorsnemanna og hvar við þyrftum að gera betur. Doktorsnemarnir sem þátt tóku í könnuninni er almennt ánægðir með námið og telja að persónuleg hæfni sína til að takast á við ýmsar hliðar rannsókna hafi aukist og faglegt tengslanet þeirra styrkst, sem er mjög jákvætt. Á sama tíma er bent á að við þyrftum að gera enn betur hvað varðar tiltekin gæðamál, svo sem er varða eflingu rannsóknasamstarfs innan sviða, framboð námskeiða að ógleymdri fjármögnuninni,“ segir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Miðstöðvar framhaldsnáms. 

Mikil ánægja með leiðbeinendur

Í könnuninni kemur einnig fram mikil ánægja með leiðbeinendur en hartnær níutíu prósent þátttakenda fullyrða að leiðbeinendur hafi færni og fagþekkingu til að styðja við doktorsrannsóknina. Þá telja nær sjötíu prósent þátttakenda að hæfni þeirra hafi aukist við að stjórna verkefnum samhliða rannsóknum í náminu. Rösklega sjötíu prósent svarenda segja sig betur undirbúna fyrir starfsferil vegna námsins.

Í stefnu skólans er mikið lagt upp úr því að tryggja doktorsnemum aðstöðu til námsins og sögðust tæplega sjötíu prósent hafa eigin námsaðstöðu í Háskóla Íslands. Rösklega sjötíu prósent töldu hana hentuga. 

„Doktorsnámið við Háskóla Íslands hefur eflst mjög á síðustu árum og doktorsnemum hefur fjölgað. Það hefur haft í för með sér skemmtilegar áskoranir sem við munum halda áfram að takast á við næstu misserin,“ segir Guðbjörg Linda að lokum og hvetur fræðasvið og deildir til að skoða nánar niðurstöður könnunarinnar.