Djass á Háskólatónleikum á miðvikudaginn | Háskóli Íslands Skip to main content

Djass á Háskólatónleikum á miðvikudaginn

18. febrúar 2018

„Fyrir mér er þetta sérstakur viðburður því að þetta verður í fyrsta sinn sem ég spila sólótónleika á Íslandi,“ segir Ingi Bjarni Skúlason djasspíanóleikari sem flytur eigin tónsmíðar, sumar í fyrsta skipti á Háskólatónleikum miðvikudaginn 21. Febrúar nk.  Tónleikarnir eru í hádeginu og hefjast klukkan 12.30. 

„Fólk þekkir mig sem jazz­píanóleikara en ég er meira,“ segir Ingi Bjarni, „ég er píanóleikari og ég spila tónlist. En ég vil meina að flokkun tónlistar í stílbrigði sé stundum óþörf. Ég er einfaldlega píanóleikari og á þessum tónleikum mun ég spila tónlist.“

Verkin sem Ingi Bjarni mun spila eru af ýmsum toga en öll undir áhrifum af norrænum þjóðlögum og djassi. „En ef ég ætti að lýsa tón­listinni minni í hnot­skurn, þá mætti segja að þetta sé mín eigin þjóðlaga­tónlist byggð á mínímalískum en þó skil­virkum laglínum ásamt hljómum sem endurspegla hluti og fólk í lífi mínu,“ segir Ingi Bjarni. 

Ingi Bjarni Skúlason nam djasspíanóleik í Tónlistarskóla FÍH og lauk þaðan námi árið 2011. Vorið 2016 lauk hann BA-prófi frá Konunglega tónlistarháskólanum (Koninklijk Conserva­torium) í Den Haag í Hollandi. Nú stundar hann kennslu og undirleik en er samtímis virkur flytjandi eigin tónlistar. 

Sumarið 2015 gaf Ingi Bjarni út sinn fyrsta geisladisk, Skarkala. Diskurinn fékk ágætisdóma frá erlendum djass­tímaritum. Seinna á þessu ári kemur svo út nýr tríódiskur sem fengið hefur nafnið Fundur.

Ingi Bjarni hefur nokkrum sinnum komið fram á Jazz­hátíð Reykjavíkur. Hann hefur líka spilað á alþjóð­legum hátíðum eins og Copenhagen Jazz Festival, Vilnius Jazz Festival í Litháen, Lillehammer Jazz Festival í Noregi og Jazz in Duketown í Hollandi. Þar að auki hefur hann komið fram á tónleikum hérlendis en líka í Svíþjóð, Eistlandi, Lettlandi, Færeyjum, Belgíu og Hollandi.

Eins og áður segir eru þetta eru fyrstu einleikstónleikar Inga Bjarna hérlendis og fara þeir fram á Litla torgi Háskólatorg þann 21. febrúar  kl.  12.30. 

Aðgangur er ókeypis.

Ingi Bjarni Skúlason

Netspjall