Davíð valinn heiðursvísindamaður Landspítala | Háskóli Íslands Skip to main content
13. október 2020

Davíð valinn heiðursvísindamaður Landspítala

Af skurðstofu

Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala og gestaprófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, er heiðursvísindamaður Landspítala 2020. Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi sem þykir hafa náð framúrskarandi árangri í vísindarannsóknum á sínum starfsferli. 

Davíð lauk kandidatsprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands. Hann hefur einnig lokið doktorsprófi frá sama skóla auk meistaraprófs í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu frá Háskólanum í Reykjavík. Hann var við sérfræðinám við University of Iowa Hospitals and Clinics í Iowa City í Bandaríkjunum um sjö ára skeið og lauk þaðan sérfræðinámi í lyflækningum, hjartalækningum og raflífeðilsfræði hjartans. Hann hefur lokið bandarískum sérfræðiprófum í lyflækningum og hjartalækningum og hefur sérfræðiviðurkenningu hérlendis í lyflækningum, hjartasjúkdómum og heilbrigðisstjórnun.  

Davíð hefur yfirgripsmikla stjórnunarreynslu innan heilbrigðiskerfisins og er yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala, gestaprófessor við læknadeild Háskóla Íslands og formaður Félags íslenskra lyflækna. Hann hefur komið talsvert að félags og nefndarstörfum hjá Evrópusamtökum hjartalækna.

Hans megin áhugasvið í vísindarannsóknum snýr að erfðafræði hjartsláttartruflana, sér í lagi gáttatifs, og nýtingu erfðaupplýsinga í heilbrigðisþjónustu. Davíð hefur unnið mjög náið með Íslenskri erfðagreiningu og hafa niðurstöður rannsókna þeirra vakið verulega athygli, birst í mjög virtum tímaritum og aukið skilning okkar á grunnorsökum hjartsláttartruflana. Hafa rannsóknirnar meðal annars sýnt fram á mikilvægi stökkbreytinga í genum sem tjá samdráttarprótín hjartavöðvafruma í tilkomu gáttatifs. Hafa þessar uppgötvanir leitt til grundvallarbreytinga á hugmyndun um meingerð þessarar algengu hjartsláttatruflunar og gætu leitt af sér nýja nálgun í áhættumati og meðferð sjúkdómsins. 

Einnig hefur Davíð unnið heilmikið að klínískum rannsóknum. Þar má nefna samstarfsverkefni með Hjartavernd á afleiðingum gáttatifs á heila, sér í lagi áhrif til skerðingar á vitrænni getu, minnkunar á heilablóðflæði og heilarúmmálsrýrnun. Davíð hefur mikinn áhuga á nýtingu snjalltækni til fjarvöktunar á einkennum og líðan hjartasjúklinga sem og til að efla fræðslu um mikilvægi lífstílsbreytinga. Davíð undirbýr nú rannsóknir á fýsileika þess að bæta við fjareftirliti og fræðslu með snjalltækni til viðbótar hefðbundinni meðferð við kransæðasjúkdómi, hjartabilun og gáttatifi í samstarfi við fyrirtækið Sidekick Health. 

Davíð O. Arnar