Skip to main content
18. júní 2021

Dagný Kristjánsdóttir sæmd riddarakrossi

Dagný Kristjánsdóttir sæmd riddarakrossi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 17. júní. Hún hlaut riddarakrossinn fyrir kennslu og rannsóknir á bókmenntum íslenskra kvenna og barnabókmenntum.

Dagný Kristjánsdóttir er fædd 19. maí 1949 og hún lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði og íslensku, MA-prófi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og varði doktorsritgerð sína Kona verður til. Um fullorðinsbækur Ragnheiðar Jónsdóttur við Háskóla Íslands 1996. Það var þriðja doktorsvörn konu við Háskóla Íslands frá upphafi og fyrsta doktorsritgerðin um íslenskar kvennabókmenntir.

Dagný kenndi barna- og unglingabókmenntir við Háskóla Íslands frá árinu 2000. Hún hlaut m.a. viðurkenningu Samtaka móðurmálskennara í apríl 2018 fyrir framlag sitt til rannsókna, kennslu og fræðastarfa í þágu barna- og unglingabókmennta. Rannsóknarsvið Dagnýjar eru íslenskar bókmenntir, íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, bókmenntir og læknisfræði (læknahugvísindi), sálgreining og vistrýni. Hún hefur flutt fjölda fyrirlestra á ráðstefnum og málþingum hérlendis og erlendis. Helstu rit Dagnýjar eru Frelsi og öryggi. Um sögur Svövu Jakobsdóttur og íslenska kvennahreyfingu (1978), Kona verður til. Um fullorðinsbækur Ragnheiðar Jónsdóttur (1996), Undirstraumar. Greinar og fyrirlestrar (1999), Öldin öfgafulla. Bókmenntasaga tuttugustu aldarinnar (2010) og Bókabörn. Íslenskar barnabókmenntir verða til (2015).

Dagný Kristjánsdóttir tekur við riddarakrossi úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar forseta.