Skip to main content
9. febrúar 2018

Dagbækur Grænlandsfara

""

Út er komin bókin Grænlandsfarinn sem hefur að geyma ferðadagbækur Vigfúsar Sigurðssonar Grænlandsfara (1875 - 1950). Dagbækurnar lýsa þremur sögulegum Grænlandsleiðöngrum Vigfúsar sem gerðu hann nafnkunnan hér á landi. Tvívegis var hann fylgdarmaður landkönnuða sem notuðu íslenska hesta á ferðum um Grænlandsjökul. Í leiðangri 1912-1913 var farið þvert yfir Grænland með vetursetu á jökli og komust leiðangursmenn naumlega lífs af úr þeirri ferð. Einum leiðangranna  stýrði Alfred Wegener, höfundur landrekskenningarinnar, og sjálfur stóð Vigfús fyrir leiðangri 1929 sem farinn var til að fanga vísi að íslenskum sauðnautastofni.

Vigfús Geirdal, sagnfræðingur og dóttursonur Grænlandsfarans, bjó dagbækurnar undir prentun, en hann lést í árslok 2016. Eftir fráfall hans gengu Árni Hjartarson, Helgi Skúli Kjartansson og Bragi Þorgrímur Ólafsson endanlega frá verkinu til útgáfu, og kom það út á fæðingardegi Vigfúsar Geirdals, en þann 24. janúar hefði hann orðið sjötugur. Hann stundaði kennslustörf, vann að gerð útvarpsþátta, sinnti rannsóknum og þýðingum og ritaði fjölmargar greinar í blöð og tímarit og vann jafnframt að friðarmálum bæði hér á landi og í samstarfi við erlendar friðarhreyfingar. Síðustu æviárin helgaði hann sig vinnu og rannsóknum tengdum Grænlandsferðum afa síns.

Bókin kemur út hjá Háskólaútgáfunni í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar, en ritstjórar hennar eru Davíð Ólafsson aðjunkt, Már Jónsson prófessor og Sigurður Gylfi Magnússon prófessor.

Grænlandsfarinn bókakápa